Vetrarveður og færð gæti spillst

Útlit er fyrir hvassviðri og snjó á norðanverðu landinu og eru ýmist gular eða appelsínugular viðvaranir í gildi fyrir Strandir og austur á firði fram á miðjan dag á morgun.

Það verður norðan 8-15 m/s og rigning á Norður- og Austurlandi í fyrstu en slydda eða snjókoma til fjalla, en bjart með köflum sunnan heiða. Hvessir í kvöld og bætir í úrkomu fyrir norðan.

Norðan- og norðvestan 10-18 m/s á morgun, en snarpir vindstrengir við fjöll sunnan til. Talsverð rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi, en annars skýjað með köflum. Dregur úr vindi vestanlands og úrkomu á Norðvesturlandi um kvöldið. Hiti breytist lítið.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni í morgun segir að á norðanverðum Vestfjörðum og á Norðurlandi bætir í úrkomuna í kvöld. Snjóar ofan um 200-300 metra yfir sjó og áfram fram eftir morgni. Varasamt í nótt og fyrramálið, en þrátt fyrir kalt loftið nær hitinn yfir miðjan daginn yfir frostmarkið á flestum fjallvegum. Frystir síðan aftur annað kvöld.

DEILA