Vesturbyggð : kostnaður við gatnagerð fjórfaldast

Patreksfjörður. Horft yfir Mýrar og fær Urðarveg.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt hækkun á framlagi til gatnagerðar um 53 m.kr. Er það vegna gatnagerðar við Brunna á Patreksfirði. Fyrir var í fjárhagsáætlun gert ráð fyrir 18 m.kr. framlagi til gatnagerðar og innviða.

Á móti þessum auknum útgjöldum koma til styrkir frá Fiskeldissjóði fyrir byggingu leik og grunnskóla á Bíldudal, skólalóðar á Patreksfirði, varmadælu í Bröttuhlíð og rannsóknarrýmis við verbúð á Patreksfirði. Í tilfellum skólalóðar á Patreksfirði og grunn og leikskólabyggingar á Bíldudal kemur styrkurinn til lækkunar á heildarfjárfestingu þar sem gert var ráð fyrir fullri fjármögnun í fjárhagsáætlun og bætir það stöðuna um 69 m.kr.

En í tilfellum Varmadælu í Bröttuhlíð og fjármuna sem fengust í rannsóknarrýmið er fjárfesting hækkuð á móti þar sem ekki var gert ráð fyrir fullri fjármögnun í áætlun.

Breytingarnar fara til bæjarstjórnar til staðfestingar.

DEILA