Vesturbyggð: áhyggjur af Dynjandisheiði

Frá Dynjandisheiði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Vesturbyggðar segir í ályktun sem samþykkt var á fundi þess á þriðjudaginn að það lýsir yfir áhyggjum af því að ekki sé útlit fyrir það að samfella verði í framkvæmdum á Dynjandisheiði. „Heilsárssamgöngur milli norður og suður svæðis Vestfjarða eru mikilvægar fyrir bæði íbúa og atvinnulíf og munu koma til með að gjörbreyta möguleikum Vestfirðinga og annarra landsmanna til þessa að fara um svæðið á ársgrundvelli.“

Þá lýsti það áhyggjum af frestum framkvæmda í Gufudalssveit og segir mikilvægt að flýta framkvæmdum í Arnarfirði um Bíldudalsveg 63.

Bæjarstjóra var falið að kalla eftir svörum stjórnvalda.

Ályktunin í heild:

„Rætt um vegaframkvæmdir á svæðinu og fyrirsjáanlegar tafir á þeim.

Um leið og bæjarráð Vesturbyggðar fagnar þeim samgöngubótum sem orðið hafa á svæðinu undanfarin ár þá er mikið verk enn óunnið og staða í vegamálum í miklu ólagi.

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir áhyggjum af því að ekki sé útlit fyrir það að samfella verði í framkvæmdum á Dynjandisheiði. Heilsárssamgöngur milli norður og suður svæðis Vestfjarða eru mikilvægar fyrir bæði íbúa og atvinnulíf og munu koma til með að gjörbreyta möguleikum Vestfirðinga og annarra landsmanna til þessa að fara um svæðið á ársgrundvelli.

Bæjarráð lýsir jafnframt yfir áhyggjum af mögulegum drætti á útboði lokaáfanga á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit. Framkvæmd sem beðið hefur verið eftir til fjölda ára og mikið áhyggjuefni ef frekari tafir verða á.

Mikilvægt er að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum um Bíldudalsveg 63 niður Trostansfjörð þar sem sú framkvæmd er gríðarlega mikilvægur hlekkur í vegasamgöngum svæðisins.

Bæjarráð skorar á stjórnvöld að taka samgönguáætlun til afgreiðslu á fyrstu dögum haustþings þar sem ólíðandi er að ekki sé til staðar gildandi framkvæmdaáætlun í samgöngumálum.“

DEILA