Út er komin skýrsla Vestfjarðastofu um mögulega þjóðgarða á Vestfjörðum. Nefnist hún sóknarfæri í byggðaþróun. Höfundur er Hjörleifur Finnsson verkefnastjóri.
Fram kemur að Vestfirðir eru eini landshluti Íslands þar sem ekki er að finna þjóðgarð. Þjóðgarðar á Íslandi hafa að mestu verið fjármagnaðir af ríkinu, en síðustu ár hafa sértekjur þeirra aukist til muna vegna fjölgunar ferðamanna og breyttra áherslna. Í inngangi segir að þegar þjóðgarðar hafa verið stofnaðir hefur ríkið byggt upp innviði til ferðamennsku og útivistar og séð um viðhald og rekstur þeirra. M.a. af þessum ástæðum hafi stofnun þjóðgarða á Íslandi leitt til mikillar fjölgunar ferðamanna og uppbyggingar ferðaþjónustu á nærsvæðum þeirra (Hagfræðistofnun 2018).
„Með þessum hætti má færa fyrir því rök að ein af ástæðum þess að Vestfirðir hafi verið eftir á í þróun ferðaþjónustu sem atvinnuvegar sé vöntun á þjóðgarði.“
Á Vestfjörðum eru níu friðlýst svæði.
Skýrsluhöfundur nefnir sex svæði þar sem hann telur að þjóðgarður geti verið á og telur tvö þeirra möguleg, Dynjandisþjóðgarður og Drangajökulsþjóðgarður.
Undirbúningur að Dynjandisþjóðgarði hófst 2021 en stöðvaðist þar sem Ísafjarðarbær „taldi grunnspurningum um uppbyggingu innviða ósvarað Síðan hefur lítið hreyfst þar sem Umhverfisráðneytið hefur enn ekki tekið afstöðu til erindis Orkubús Vestfjarða um afnám friðlýsingar að hluta, eða breytingu á
friðlýsingu Vatnsfjarðarfriðlands svo hægt sé að meta virkjunina í Rammaáætlun og virkja megi þar vatnsafl.“
Í kjölfar deilna um Hvalárvirkjun 2017 kom til álita að svæðið yrði að þjóðgarði sem talið er óraunhæft vegna stöðu þess í nýtingarflokki Rammaáætlunar, og stjórnsýslulega stöðu rammaáætlunar ofar skipulagi sveitarfélaga. „Hinsvegar væri möguleiki að friðlýsa allt land norðan framkvæmdasvæðis Hvalárvirkjunar, frá og með Drangajökli norður Snæfjallaströnd, Jökulfirði, Norðurstrandir og Hornstrandir – og þannig skapa Drangajökulsþjóðgarð.“