Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis sem haldinn var í Holti við Önundarfjörð þann 8. september 2024 skorar á kirkjuyfirvöld að fjölga prestum á Vestfjörðum og hafa eftirleiðis tvo presta þjónandi í Patreksfjarðarprestakalli.
Eftirfarandi greinargerð fylgir með ályktuninni:
Um síðustu aldamót voru starfandi 14 prestar á Vestfjörðum. Þá sat prestur í Árnesi á Ströndum, annar prestur á Hólmavík, sá þriðji á Prestsbakka, sá fjórði á Reykhólum, sá fimmti á Patreksfirði, sá sjötti á Tálknafirði og sá sjöundi á Bíldudal, sá áttundi á Þingeyri, sá níundi í Holti, sá tíundi á Suðureyri, sá ellefti í Bolungarvík, sá tólfti í Vatnsfirði og svo voru tveir prestar á Ísafirði. Í dag eru einugis fimm prestar eftir á Vestfjörðum.
Vestfirðir skiptast í þrjú samstarfssvæði. Á norðanverðum Vestfjörðum þjóna þrír prestar 5000 manns sem búa í sex þéttbýlissóknum og 7 sveitasóknum. Á Patreksfjarðarsvæðinu þjónar einn prestur 1500 manns sem búa í þremur þéttbýlissóknum og 7 sveitasóknum. Í Breiðafjarðar- og Strandaprestakalli þjónar einn prestur 900 manns, sem búa í þremur þéttbýlissóknum og 8 sveitasóknum.
Svo virðist sem kirkjuyfirvöld hafi einungis litið til mannfjöldatölunnar en ekki leitt hugann að því að grunneining kirkjunnar er sóknin. Í hverri sókn er gert er ráð fyrir reglulegu helgihaldi. Þá er ætlast til þess að prestar standi fyrir barnastarfi og öðru safnaðarstarfi í öllum þéttbýlissóknum. Þetta þýðir að einn prestur getur þurft að standa fyrir barnastarfi og öðru safnaðarstarfi á þremur stöðum með tilheyrandi akstri.
Starfsskyldur presta felast í reglulegu helgihaldi. Þegar einn prestur þjónar svona mörgum sóknum þá er dagljóst að viðkomandi prestur þarf að messa oft á stórhátíðum. Sumir prestar á Vestfjörðum þurfa að messa þrisvar sinnum á aðfangadagskvöld. Dæmi er um að einn prestur hafi messað alls 14 sinnum um jól og áramót. Svo bætast við skírnir, giftingar og jarðarfarir í þessum sóknum og iðulega þurfa prestar að aka langan veg til að komast í þær sóknir, sem lengst eru frá starfsstöð þeirra. Dæmi eru um að prestur hafi ekið alls 500 kílómetra til að sinna athöfn eða messu.
Samkvæmt 3. grein laga um þjóðkirkju Íslands (lög nr. 77/2021) þá ber þjóðkirkjunni að þjóna öllum landsmönnum óháð búsetu. Réttur fólks til þjónustu er ekkert minni í hinum dreifðu byggðum heldur í þéttbýli borga og bæja. Í 3. grein þessara laga segir svo: “Þjóðkirkjunni ber að halda úti kirkjulegri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Prestar og djáknar gegna vígðri þjónustu í þjóðkirkjunni.” Eins og staðan er í dag þá njóta íbúar Vestfjarða ekki sömu þjónustu presta og djákna og íbúar til að mynda á höfuðborgarsvæðinu gera.
Þá eru afleysingar orðnar erfiðar vegna þess hversu fáir prestarnir eru. Dæmi eru um að prestar hafi átt í efiðleikum með að komast í lögbundin sumarfrí vegna þess að vantað hafi afleysingu. Einnig eru dæmi um að prestar hafi tekið þá ákvörðun að stytta sumarfrí sitt til að sinna viðkvæmri þjónustu í sinni heimabyggð.
Þá skal og vakin athygli á því að á tveimar samstarfssvæðanna á Vestfjörðum, það er í Patreksfjarðarprestakalli og í Breiðafjaðar- og Strandaprestakalli er einungis einn prestur þjónandi. Þetta þýðir að viðkomandi prestur er alltaf á bakvakt, virka daga sem helgar, daga sem nætur. Þetta fær ekki staðist. Prestar hljóta líkt og annað vinnandi fólk á Íslandi að eiga sinn rétt á fríum án þess að vera alltaf á bakvakt og til taks.