Uppsagnir hjá Vestfirskum verktökum

Á föstudaginn var 26-27 starfsmönnum sagt upp störfum hjá Vestfirskum verktökum. Garðar Sigurgeirsson framkvæmdastjóri félagsins sagði í samtali við Bæjarins besta að það væru einkum þrjár ástæður fyrir þessu.

Í fyrsta lagi væri verkefnastaðan ekki nægilega góð og reksturinn væri þungur, en þó viðráðanlegur. Því fylgdi að gera þurfti skipulagsbreytingar og störfum mun eitthvað fækka. Það mun þó skýrast á næstu tveimur vikum.

Í þriðja lagi eru að verða breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins. Auk Garðars sem á 51% er Sveinn Ingi Guðbjörnsson eigandi að 49%. Garðar segir að þeir séu að fara hvor í sína áttina. Hann segist stefna að því að halda áfram með minni einingu.

Undanfarin tvö ár hefur verið mikið að gera hjá verktökum á Vestfjörðum en Garðar telur að minna sé framundan í vetur, en þó geti það breyst með skömmum fyrirvara og ræst úr. Vestfirskir verktakar eru að vinna að brúarsmíð fyrir Vegagerðina við Klettháls og því ljúki fyrir áramótin. Vegagerðin hefur ekki auglýst frekari verk.

DEILA