Í lok júní veitti Byggðastofnun fyrsta lánið til nýliðunar í landbúnaði undir nýju samkomulagi við evrópska fjárfestingasjóðinn (EIF).
Lánið var veitt til Rebekku K. Björgvinsdóttur sem festi kaup á jörðinni Hólmahjáleigu í Landeyjum en þar er kúabú í fullum rekstri.
Rebekka er fædd og uppalin í sveit en fluttist svo með foreldrum sínum til höfuðborgarsvæðisins. Aðspurð af hverju hún hafði tekið stökkið og keypt sér bújörð segir hún: „Foreldrar mínir hættu búrekstri þegar ég var barn og ég fór því í skóla í bænum en við vorum þó alltaf í sveitinni hjá afa og ömmu í öllum fríum og um allar helgar. Afi var með kindur alla mína æsku og fram á unglingsárin sem mér þótti ósköp gaman að, ég missti eiginlega af kúnnum en lærði á kindurnar. Í raun var það alltaf draumur að geta keypt jörð og flutt í sveitasæluna aftur“.
Jack William Bradley, kærasti Rebekku, féll fyrir landbúnaðarstörfum á Íslandi fyrir 10 árum og það var hann sem benti Rebekku á að jörðin Hólmahjáleiga í Landeyjum væri til sölu. „Jack kemur með þekkingu og reynslu inn í búskapinn og ég með fjármagnið sem gerir þetta að skemmtilegri samvinnu. Við gátum því hjálpað hvort öðru að láta drauma okkar rætast.“
Rebekka starfaði áður á fasteignasölu og kynntist lánamöguleikum Byggðastofnunar þar. Auk þess benti fasteignasalinn henni á lánamöguleika stofnunarinnar í kaupferlinu sem og bændur á svæðinu.