Tillaga um Húnavallaleið lögð fram á Alþingi

Þingmennirnir Njáll Trausti Friðbertsson og Ásmundur Friðriksson hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um Húnavallaleið.

Tillagan felur í sér að Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að fá Vegagerðinni það hlutverk að uppfæra forsendur fyrir uppbyggingu Húnavallaleiðar og hefja samtal við Húnabyggð um hvort Húnavallaleið verði bætt við sem nýframkvæmd í samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038.

Jafnframt á að meta hvort heppilegt sé að Húnavallaleið verði samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila í samræmi við lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020

Tillagan var lögð fram á 154. löggjafarþingi (302. mál) en var ekki afgreidd.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars: „Markmiðið með lagningu nýs vegar væri, ásamt vegabótum, að stytta núverandi leið milli Reykjavíkur og Akureyrar. Umferðaröryggi myndi batna verulega vegna betri hæðar- og planlegu auk þess sem tengingum myndi fækka til muna. Núverandi vegur er 30,4 km langur og liggur frá Brekkukoti í Þingi, norður í gegnum Blönduós og að stað skammt austan við heimreið að bænum Skriðulandi í Langadal. Kaflinn frá Brekkukoti í Þingi og um Blönduós er ágætur. Aftur á móti er kaflinn frá Blönduósi og um norðanverðan Langadal mjór og hlykkjóttur, uppfyllir ekki kröfur um sjónlengdir samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og er einn hættulegasti vegarkaflinn milli Akureyrar og Reykjavíkur. Fjöldi vegtenginga og vegamóta (a.m.k. 26 talsins, auk tenginga inn á tún) liggur að veginum og er slysatíðni há. . . .   

Talið er að Húnavallaleið sé ein arðsamasta framkvæmd í vegagerð sem mætti ráðast í á Íslandi. Hringvegurinn yrði styttur um 14 km. Um 1.000 ökutæki fara þarna um á degi hverjum og vegfarendur kæmust leiðar sinnar á nýjum og öruggum 17 km vegi í stað rúmlega 30 km á núverandi hringvegi sem er ekki mjög breiður og liggur í gegnum þéttbýli.“

DEILA