Sundahöfn: stórt verk fyrir Sundahöfn langt komið

Skemmtiferðaskip við Sundabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Geirnaglinn ehf er langt kominn með að vinna stórt útboðsverk fyrir Ísafjarðarhöfn. Steypt var um 6.300 fermetra þekja fyrir höfnina við Sundabakka og steypt fyrir þjónustuhús vegna skemmtiferðaskipa.

Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri segir að búið sé að steypa þekjuna og þjónustuhús. Geirnaglinn sá einnig um að leggja vatns og rafmagnsrör í kantinn og undirbúa undir malbikun. „Það sem eftir er af þeirra verki er að reisa ljósastaura og setja gólf, glugga og hurðir í þjónustuhúsin.“

Verklok eru áætluð í september 2024 og taldi Hilmar að það myndi klárast í mánuðinum.

Tilboð Geirnaglans ehf var 263.993.980 kr. sem var nærri 6% undir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Að sögn Hilmars var ekki um umframkostnað að ræða vegna steypunnar.

DEILA