Súgandafjarðargöngin: breikkun nauðsynleg en ekki næsta framkvæmd

Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu á Suðureyri segir að breikkun Súgandafjarðarhluta Vestfjarðaganga sé nauðsynleg, en segist hafa skilning á því að aðrar framkvæmdir á Vestfjörðum séu brýnni og nefnir sérstaklega breikkun Breiðadalshluta ganganna og Súðavíkurgöng. Hann segir að það sé ekki gott að hafa einbreið göng til Suðureyrar en það hindri þó ekki búsetu í Súgandafirði.

Elías Guðmundsson framkvæmdastjóri Fisk Club á Suðureyri tekur í svipaðan streng. Hann telur umferðastjórn með ljósum geta leyst úr hluta vandans í Vestfjarðagöngum. Elías telur áríðandi að vegurinn um Súgandafjörð verði mokaður betur yfir vetrartímann svo fólk komist í göngin. „Það er alls ekki svo gott. Þjónusta við snjómokstur hefur farið mikið aftur undanfarin ár. Svo er vegurinn um Súgandafjörð frá Botni og út fjörð orðinn um 40 ára gamall, ekki í fullri breidd, holóttur og með handónýtu malbiki. Það væri amk rétt að byrja á því að laga veginn að göngum fyrst að mínu mati.“

Samkvæmt umferðartölum frá Vegagerðinni er ársdagsumferðin um Súgandafjarðarhluta Vestfjarðaganga 280 bílar og 580 bílar að meðaltali á hverjum degi um Breiðadalslegg ganganna. Til Ísafjarðar er ársdagsumferðin 790 bílar.

Ársdagsumferðin í Ögri í Ísafjarðardjúpi er 240 bílar en búist er við því að stór hluti þeirrar umferðar fari vestur um Vestfjarðargöng eftir að vegarbótum á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit verður lokið.

Til samanburður er ársdagsumferðin um Bolungavíkurgöng 1.200 bílar.

DEILA