Sigur í fyrsta leik hjá körfuknattleiksdeild Vestra

Það var spenna í loftinu Jakanum á föstudagskvöldið.  Fyrsti heimaleikurinn hjá Körfuknattleiksdeild Vestra á nýju tímabili, nýr (en samt gamalreyndur) þjálfari og breytt ásjóna á liðinu. Fjölmargir áhorfendur voru mætti en yfir 200 áhorfendur voru á leiknum.

Laugdælir mættu seint í upphitun, voru lengur á leiðinni þar sem bíll hjá þeim bilaði. Strax í upphafi leiks var ljóst að það var talsverður munur á liðunum.  Vestra strákarnir komust strax í þægilega forystu og juku hana jafnt og þétt.

Liðsheildin var nokkuð góð í sóknarleiknum, Elmar og Hjálmar leikstjórnendur voru duglegir að finna opna menn sem nýttu færi sín vel.  Reinis var drjúgur í vörn og sókn og varði körfuna vel fyrir sóknaraðgerðum andstæðinganna og varði fjölmörg skot.

Leikurinn endaði með þó nokkuð öruggum sigri 89-61 fyrir Vestra og fengu allir leikmenn að spreyta sig í leiknum. 

Reinis var stigahæstur með 23 stig og fjöldann allan af fráköstum og fráköstum.  Jón Gunnar var næst stigahæstur með 14 stig, hitti vel úr sínum þriggja stiga skotum og sótti líka vel á körfuna.  Hjálmar nýtti sín færi vel og var með 11 stig.  Elmar var góður að stýra leik liðsins og var með ríflega 10 stoðsendingar og 9 stig, ekki amaleg frammistaða.  Egill (7 Stig)  var góður í fráköstum og kemur með baráttu inn í liðið og hann er líklegur til að vaxa sem leikmaður eftir nokkurra ára hlé frá körfubolta.  Magnús (5 stig) var líka drjúgur í fráköstum og kláraði færi sín vel undir körfunni. Haukur, sem var búinn að fá að kynnast því að spila með meistaraflokknum í fyrra var 6 stig og er ungur og efnilegur leikmaður sem vert verður að fylgjast með á komandi árum.   Frosti var með 7 stig. Hinn síungi Gunnlaugur (6 stig) smellti tveimur þristum og fiskaði ruðninga eins og hann var vanur þegar hann var upp á sitt besta.  Annar ungur efnilegur leikmaður Árni komst líka á blað með 2 stig.  Kjartan og Stefán komust ekki á blað en fengu góð færi.

Heilt yfir var þetta sigur liðsheildarinnar, þrátt fyrir að liðið væri að spila sinn fyrsta leik þá þekkja þessi strákar hvorn annan vel og sást það vel á góðu samspili á köflum.  Vörn og fráköst má alltaf bæta, en að mestu leyti var liðsvörnin góð.

Næsti leikur er útileikur á móti Fjölni B.  29. september kl. 15:15.  Við hvetjum alla Vestramenn suður í Reykjavík að mæta í Dalhús og styðja við strákana.

DEILA