Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja jarðvegsskipti á Suðurtanga 24, en það er lóð sem Kerecis áformar að byggja á.
Það er umhverfis- og og eignasvið sem óskar eftir heimild bæjarráðs til að fara í jarðvegsskipti á svæðinu. Ekki er gert ráð fyrir framkvæmdinni í fjárhagsáætlun.
Í minnisblaði verkefnisstjóra á sviðinu kemur fram að til þess að meta magn á rusli á lóðinni verður farið í prufugröft á tveimur 10 x 10 m (100 fermetra) rannsóknarsvæðum til að kanna magn rusls á þeim svæðum. Niðurstöður á hlutfalli rusl í lóð úr þessum tveimur 100 fermetra svæðum verður svo notað til að finna út umfang ruslsins á allri lóðinni. Grafið verður niður fyrir ruslalagið, niður í sandlag, um 3,0-4,0 m niður fyrir núverandi yfirborð. Núverandi landhæð er í kóta um 2,0.
Áætlað er að vinna við gröft á báðum rannsóknarsvæðunum taki um 6 daga, á sama tíma verður ruslið grófflokkað í gáma. Þetta yrði unnið með tveimur gröfum, önnur grefur upp jarðveg og rusl og hin grófflokkar ruslið í gáma (með krabba). Síðan þarf væntanlega meiri flokkun og meta hversu stórt hlutfall rusls er á fermetra. Það ætti að gefa vísbendingar um heildarmagns rusls í jarðvegi á allri lóðinni. Eftir flokkun er ruslið flutt í Fíflholt.
Áætlaður kostnaður við þessa vinnu og leigu á gámum er um 7 -9 mkr.
Þær upplýsingar sem fást úr þessari vinnu ættu að gefa nokkuð góðar vísbendingar um hlutfall rusls á lóðinni og þar með líklegan kostnað ef fjarlægja þarf ruslið til að gera lóðina byggingarhæfa.