Samfylkingin: vilja auka framboð á húsnæði

Fundurinn var vel sóttur.

Tveir þingmenn Samfylkingarinnar komu vestur í vikubyrjun og héldu fundi á Reykhólum, Ísafirði og Hólmavík. Það voru þau Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og Jóhann Páll Jóhannsson alþm. Fundurinn á Ísafirði var síðdegis á mánudaginn í Edinborgarhúsinu og Samfylkingin notaði blíðviðrið og grillaði pylsur á planinu fyrir utan húsið og bauð gestum áður en sjálf fundarhöldin hófust.

Yfirskrift fundarinar var um húsnæðis- og kjaramál og reifuðu þingmennirnir áherslur Samfylkingarinnar í þeim málum. Fram kom að tillögur flokksins eru til þess að auka framboð á húsnæði og leiðrétta markaðsbrest víða um land þar sem byggingarkostnaður er hærri en markasverð íbúða.

Þá er vilji til þess að ríkið komi fastar að málaflokki leikskóla. Rætt var einnig um almannatryggingar og þar eru áherslurnar að styðja að tekjulægri njóti frekari ávinnings af söfnun í lífeyrissjóði.

Varðandi tekjuöflun hins opinbera var bent á frekari tekjuöflun af auðlindagjöldum á heildrænan hátt , svo sem af sjávarútvegi og orkuframleiðslu svo og að jafna skattbyrði milli launa og fjármagns.

Jóhann Páll alþm í góðum hópi Ísfirðinga.

Grillað var úti í góða veðrinu.

Myndir: Samfylkingin.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar með Sif Friðleifsdóttur, fyrrv. ráðherra sem þarna var stödd í öðrum erindagjörðum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA