Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar og Jóhann Páll Jóhannsson alþingismaður boða til opinna funda á Vestfjörðum dagana 3. og 4. september. „Við hlökkum til að eiga samtöl við heimamenn um húsnæðismálin, kjörin og málefni fjölskyldna,“ segir Kristrún en fundirnir eru liður í umfangsmiklu málefnastarfi flokksins um allt land.
Málin verða diskúteruð yfir ljúffengri súpu í Reykhólabúðinni á Reykhólum þriðjudaginn 3. september kl. 12:00. Á Ísafirði verður boðið upp á fjölskyldugrill í Edinborgarhúsinu kl. 17:00 sama dag þar sem Arna Lára bæjarstjóri slæst í hópinn – og hver veit nema leynigestur heilsi upp á börnin? Loks verður haldinn morgunfundur á Kaffi Galdri á Hólmavík miðvikudaginn 4. september kl. 9:00.
Málefnastarfið opnað upp á gátt
„Það hefur verið kappsmál hjá okkur að opna málefnastarf Samfylkingarinnar upp á gátt þannig að fólk um allt land geti tekið þátt í að leggja grunn að áherslum og forgangsröðun flokksins í veigamestu málaflokkum. Það er öllum velkomið að taka þátt í samtalinu og koma á framfæri sínum sjónarmiðum,“ segir Kristrún. „Heilbrigðismálin voru í forgrunni í fyrra, svo atvinna og samgöngur síðasta vetur og nú erum við að taka hringferð um húsnæðis- og kjaramálin.“
Jóhann Páll er formaður stýrihópsins sem fer fyrir vinnunni. „Við erum meðal annars að kortleggja hvernig er hægt að byggja meira, hraðar og betur til að koma jafnvægi á íbúðamarkaðinn, hvernig er skynsamlegt að styðja betur við barnafólk og tryggja að eldra fólk njóti ávinnings af því að hafa greitt í lífeyrissjóði.“
Hér eru hlekkir á nýleg útspil Samfylkingar:
Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum – https://bit.ly/3y7dFPm
Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum – https://bit.ly/3UE77zJ