Sameiginleg brunavarnaráætlun fyrir norðanverða Vestfirði

Bílafloti slökkviliðsins fyrir nokkrum árum.

Í bréfi Sigurðar Arnars Jónssonar, slökkviliðsstjóra Ísafjarðarbæjar til bæjarráðs kemur fram að vinna við nýja brunavarnaráætlun fari að hefjast á haustdögum. Starfsmenn slökkviliðsins munu sjá um þessa vinnu.

Ákveðið hafi með stuðningi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að gera eina sameiginlega áætlun, fyrir Ísafjarðarbæ, Súðavík og Bolungarvík í stað þriggja.

Sú áætlun sem er í gildi rennur út í júní 2025 hjá Ísafjarðarbæ en ekki hefur verið gerð áætlun í mörg ár, hvorki fyrir Súðavík né Bolungavík.

Slökkviliðið þurfi samþykki bæjarráðs fyrir þessari vinnu þar sem um eina sameiginlega brunavarnaráætlun er að ræða á svæði slökkviliðsins. Kostnaður er minniháttar segir slökkviliðsstjóri en verður einhver með aðkeyptri aðstoð brunatæknifræðinga og aðra sérfræðinga.

„Það er skylda hvers slökkviliðs að gera brunavarnaráætlun fyrir sitt svæði, þar kemur fram hvernig slökkvilið er statt til að takast á við lögbundin verkefni í sveitarfélaginu. Bæði um bruna, eiturefni ef einhver eru og einnig dælugeta til að takast á við rigningarvatn og sjávarflóð. Brunaslöngulagnir í metrum, tegund á brunabílum, árgerð og útbúnaður á bílum og einnig hvort að körfubíll sé til taks og hversu hátt hann fer.“

Bæjarráðið tók ekki afstöðu til erindisins en vísaði málinu til kynningar í skipulags- og mannvirkjanefnd.

DEILA