Í sumar komu 25 skemmtiferðaskip til Patreksfjarðar og segir Elfar Steinn Karlsson, hafnarstjóri að með þeim hafi komið um 7.000 farþegar.
Það er ekki búið að gefa út reikninga fyrir síðustu skipunum en tekjur hafnarsjóðs eru áætlaðar um 13 milljónir króna.
Ný flotbryggja í Patrekshöfn er komin í gagnið og þar er aðstaða fyrir farþega skemmtiferðaskipa sem koma í land með léttabátum. Við bryggjuna mun einnig liggja Björgunarskipið Vörður.
Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti í vikunni viðauka 3 við fjárhagsáætlun ársins að upphæð 5 m.kr. vegna uppsetningar á strengjum og endurnýjun á rafmagnstöflum við smábátahafnir við Patrekshöfn.
Framkvæmdir hafnasjóðs verða eftir viðaukann þá á árinu 112.6 m.kr. Stærst eru kaup hafnasjóðs á Vatneyrarbúð af bæjarsjóði fyrir 78 m.kr. og er ætlunin að reka þar þekkingarmiðstöð fiskeldis, enda verði þar rekin starfsemi sem tengist rannsóknum og eftirliti með hafsækinni starfsemi.