Neyðarkall á Vestfjörðum

Seinni skútan í grjótinu við Pollgötuna. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lögreglan á Vestfjörðum greindi frá því fyrir skömmu að borist hefði um hádegisbilið í dag neyðarkall á rás 16 á VHF fjarskiptum. Lögreglan segir að ekki sé fullljóst hvaðan kallið barst en er horft til neyðarskýlisins í Hornvík. Né heldur hvers eðlis neyðarkallið er. En ekki hefur náðst aftur í þann sem kallaði.

Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum var virkjuð og óskað var eftir aðstoð varðskipsins Þórs, sem statt var við Snæfellsnes. Vonir standa til þess að varðskipið verði komið í Hornvík um kl.21:00 í kvöld.

Mikið hvassvirði er á Vestfjörðum. Þakplötur fuku af húsi í Bolungavík og var björgunarsveitin Ernir kölluð út. Tvær skútur hafa rekið upp í grjótið á Pollgötu á Ísafirði. Önnur hefur verið dregin út aftur en hin er landföst.

Spáð er því að vindi lægi með kvöldinu.

DEILA