Í bókinni Með harðfisk og hangikjöt að heiman fjallar Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður og sagnfræðingur um undirbúning og þátttöku Íslands á sumarólympíuleikunum í London árið 1948.
Bókin byggir að stofninum til á BA-ritgerð Þorkels í sagnfræði við Háskóla Íslands en það er Sögufélagið sem gefur bókina út.
Í bókinni er farið yfir áhugaverðan tíma í íslenskri íþróttasögu í alþjóðlegu samhengi. Margir frægir Íslendingar koma við sögu, eins og til dæmis Gunnar Huseby, kúluvarpari, sem fór ekki á leikana og Jón Leifs, tónskáld, sem keppti í listasamkeppni Ólympíuleikanna.
Ólympíuleikarnir í London árið 1948 voru merkilegir fyrir margra hluta sakir. Vegna seinni heimsstyrjaldarinnar höfðu ekki verið haldnir Ólympíuleikar í 12 ár, en aðstæður í London voru erfiðar svona stuttu eftir stríð og stundum er talað um „meinlætaleikana“ af þeim sökum. Þetta voru líka fyrstu sumarleikarnir sem Ísland keppti á eftir lýðveldisstofnun og Íslendingar höfðu metnað til að standa sig vel. Ísland sendi því stóran flokk á leikana og íslenskar konur þreyttu frumraun sína á Ólympíuleikum.
Undirbúningur Íslendinga gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Íslendingar glímdu við gjaldeyrisskort, í Bretlandi var matur af skornum skammti og ólympíuflokkurinn tók því um 100 kíló af íslenskum mat með í nesti. Að mörgu þurfti að huga, bæði varðandi þjálfun og aðstöðu keppenda, mikill hiti og erfiðar aðstæður í London settu strik í reikninginn og árangur Íslendinganna olli vonbrigðum.