Fimmtudaginn 12. september frá kl. 9-15 verður MÍ með málþing og vinnustofur í Edinborgarhúsinu á Ísafirði undir yfirskriftinni Við öll í MÍ. Þar munu Jovana Pavlovic og Sema Erla Serdaroglu stýra fræðslu og vinnustofum um fordóma, ólíka menningu, steríótýpur og fjölmenningarsamfélag.
Jovana Pavlovic er mannfræðingur, og markaðs- og verkefnastjóri og fjölmenningafulltrúi hjá Símenntun Vesturlands og Sema Erla Serdaroglu er aðjúnkt við HÍ í tómstunda- og félagsmálafræði. Í rannsóknum sínum hefur Sema Erla einblínt á kynþátta- og menningarfordóma, einelti og ungt fólk og ofbeldisfulla öfgahyggju.
Hátt í 20 tungumál í M.Í.
Málþingið og vinnustofurnar eru fyrir alla dagskólanemendur í MÍ og starfsfólk, hátt í 250 manns.
25% dagskólanemenda í skólanum hafa annað móðurmál en íslensku og alls eru töluð hátt í 20 ólík tungumál í skólanum. Inngilding er okkur því ofarlega í huga í okkar starfi alla daga en okkur langar að gera henni enn hærra undir höfði. Hugmyndin á bak við þennan dag kviknaði síðasta vetur og fékkst styrkur frá Þróunarsjóði innflytjendamála fyrir verkefninu.