Ljúka á ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og innviðaráðherra staðfestu í gær samninga fjarskiptasjóðs við 25 sveitarfélög um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026.

Lengi hefur ríkt óvissa um hvort, og þá hvenær, mörg þúsund lögheimili í þéttbýli um land allt munu eiga kost á háhraðanetsambandi, sem er mikilvægt öryggismál og undirstaða nútíma búsetugæða.

Með þessum samningum er sú óvissa ekki lengur fyrir hendi.

Fulltrúar 17 sveitarfélaga af þeim 25 sem taka þátt í verkefninu voru viðstödd undirritunina í dag, sem fram fór í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Sveitarfélögin 25 eru: Akureyrarbær, Bláskógabyggð, Bolungarvíkurkaupstaður, Borgarbyggð, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Grundarfjarðarbær, Húnabyggð, Húnaþing vestra, Ísafjarðarbær, Langanesbyggð, Mosfellsbær, Múlaþing, Norðurþing, Reykhólahreppur, Snæfellsbær, Strandabyggð, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Stykkishólmur og Vesturbyggð.

DEILA