Ljósvíkingar á hátíðarforsýningu í Ísafjarðarbíói í kvöld

Á myndinni eru Snævar Sölvason leikstjóri, Helgi Björnsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson sem leika í myndinni. Von er á fleiri aðstandendum myndarinnar til Ísafjarðar.

Í kvöld kl. 19 verður hátíðarforsýning á myndinni í Ísafjarðarbíói að viðstöddum aðalleikurum, leikstjóra og öðrum aðstandendum. Almennar sýningar á Ljósvíkingum hefjast á morgun, föstudaginn 6. september um land allt.

Myndin var að mestu leyti skotin á Ísafirði haustið 2023. Fjöldi Ísfirðinga og nærsveitarfólks tók þátt í gerð myndarinnar, bæði sem leikarar og í öðrum störfum við framleiðsluna.

Það ríkir því eftirvænting í bænum.

Kvikmyndin Ljósvíkingar var frumsýnd í Smárabíói þriðjudagskvöldið 3. september.

Myndin fjallar um æskuvinina Hjalta og Björn sem reka vinsælan fiskveitingastað á Ísafirði. Um leið og þeim býðst óvænt að hafa staðinn opinn árið um kring kemur Björn út úr skápnum sem kona. Hjalta veitist erfitt að skilja stöðu vinar síns.

Höfundur Ljósvíkinga er Snævar Sölvi Sölvason en með hlutverk þeirra Hjalta og Björns fara þau Björn Jörundur Friðbjörnsson og Arna Magnea Danks.

Í kvikmyndinni hljómar lagið Í faðmi fjallanna samið af Helga Björnssyni.

Kvikmyndin verður forsýnd í Ísafjarðarbíói í dag fyrir aðstandendur, leikara og aðra sem koma að myndinni.

Almennar sýningar hefjast í bíóinu á föstudag kl 8.

DEILA