Laxeldi: 87% á Vestfjörðum 2023

Mynd frá mælaborði fiskeldis sem sýnir framleiðslu á Vestfjörðum.

Á síðasta ári var slátrað 44.504 tonnum af eldislaxi. Þar af voru 35.683 tonn úr sjókvíaeldi á Vestfjörðum. Á Austurlandi var aðeins slátrað 5.164 tonnum. Hlutur Vestfjarða í framleiðslunni á síðasta ári var því 87%.

Þetta er óvenjuhátt hlutfall. Till samanburðar þá var framleiðslan á Austfjörðum árið 2021 17.514 tonn. Það ár var hlutur Vestfjarða 61% af heildarframleiðslunni. Skýringin er að ISA veira greindist í kvíum í Berufirði og Reyðarfirði var ákveðið að slátra öllum eldisfiski og hvíla svæðin áður en fiskur var settur út að nýju.

Laxeldið á Vestfjörðum hefur vaxið mikið síðustu ár. Árið 2015 var slátrað 2.472 tonnum en í fyrra 35.683 tonnum eins og fyrr greinir. Magnið hefur því liðlega fjórtánfaldast eða nákvæmlega aukist um 1.343% á átta árum.

Samkvæmt tölum úr mælaborði fiskeldis hjá Matvælastofnun eru tæplega 18 þúsund tonn af lífmassa af eldislaxi í vestfirskum fjörðum miðað við tölur í júlí. Heimilt er að hafa 62.000 tonn af lífmassa samkvæmt útgefnum leyfum og burðarþol fjarðanna er 82.500 tonn.

Litlu var slátrað af eldislaxi í júlímánuði, aðeins 52.761 fiskur. Sláturfiskurinn kom úr eldi í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi, en bæði í Dýrafirði og Patreksfirði/Tálknafirði var engu slátrað.

Samtals voru í júlímánuði 12,4 milljónir fiska í sjó í laxeldinu á Vestfjörðum. Flestir eru þeir í Dýrafirði 3,8 milljónir fiska, 3,3 milljónir fiska í Arnarfirði, 2,7 milljónir í Patreksfirði og Tálknafirði og 2,5 milljónir fiska í Ísafjarðardjúpi.

Á Austfjörðum er verið að ala upp sláturfisk í þremur fjörðum. Þar eru flestir fiskar í Reyðarfirði 4,2 milljónir fiska, í Fáskrúðsfirði voru í júlí 2,9 milljónir fiska og 2,7 milljónir fiska í Berufirði, samtals 9,8 milljónir fiska.

DEILA