Gefin hefur verið út aðgerðaáætlun í landbúnaði til fimm ára.
Til grundvallar áætluninni liggur landbúnaðarstefna til 2040 sem samþykkt var á Alþingi í júní árið 2023. Stefnan inniheldur framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað sem tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni. Meginmarkmið stefnunnar eru að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra segir „Það skiptir sköpum fyrir matvælaþjóð eins og Íslendinga að hafa skýra stefnu í landbúnaðarmálum“ sagði matvælaráðherra. „Við viljum sjá innlendan landbúnað vaxa og dafna, þessi aðgerðaáætlun er mikilvæg varða á þeirri leið“.
700 m.kr. gegn riðuveiki
Meðal aðgerða er ræktunaráætlun gegn riðu.
Aðgerðin felur í sér að riðuveiki verði útrýmt í íslensku sauðfé með ræktun verndandi og mögulega verndandi arfgerða, auk öflugar vöktunar- og söfnunarkerfis fyrir dýrahræ og smitvarnir.
Áætlunin gerir ráð fyrir umtalsverðri breytingu á nálgun við útrýmingu riðuveiki frá því sem verið hefur. Reiknað er með að verkefnið í heild taki 15-20 ár.
Aðgerðin er fjármögnuð að hluta. Í fjárlögum fyrir árið 2024 var veitt 110 m.kr. framlag til innleiðingar verndandi arfgerða í íslenska sauðfjárstofninn. Gert er ráð fyrir að það framlag haldist óbreytt til og með árinu 2025 en hækki svo í 120 m.kr. árið 2026, verði 90 m.kr. árið 2027 og lækki síðan í 60 m.kr. fyrir hvort árið 2028 og 2029. Eru fjárhæðirnar fyrir árin 2025-2029 settar með fyrirvara um breytingar sem mögulega kunna að verða með samþykkt fjárlaga fyrir þessi ár. Í fjárauka 2023 kom svo 58 m.kr. framlag til verkefnisins. Samtals eru þetta um 700 m.kr.