Krosseyri: deiliskipulagstillaga að heilsusetri samþykkt

Heimastjórn Arnarfjarðar hefur samþykkt  tillögu að deiliskipulagi á Krosseyri í Geirþjófsfirði og að málsmeðferð verði samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010. Það þýðir að sveitarfélagið mun senda Skipulagsstofnun hið samþykkta deiliskipulag samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær.  Telji Skipulagsstofnun að form- eða efnisgallar séu á deiliskipulagi sem henni er sent skal hún tilkynna sveitarstjórn um að stofnunin taki það til athugunar.Sveitarstjórn skal taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir Skipulagsstofnunar um efni deiliskipulags skal hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess. Birta skal auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda innan árs.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti deiliskipulagið í mars sl. en fram komu athugasemdir frá Náttúrurfræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun og voru gerðar breytingar á deiliskipulagstillögunni til þess að koma til móts við þær.

Bætt var við ákvæðum um að svæðið verður þjónustað sjóleiðina s.s. með efni til bygginga, mat og vistir o.fl. Sorp og annar úrgangur verður einnig fluttur sjóleiðina frá staðnum. Einnig ákvæði um að ekki er gert ráð fyrir að tengja svæðið við rafveitu heldur verða sólarsellur nýttar til að afla rafmagns. Raflýsingu á svæðinu skal halda í lágmarki, en beina henni niður þar sem hún er. Ennfremur var bætt við að ýtrustu umhverfissjónarmiðum skuli fylgt á svæðinu og skulu vatnsveitu-, fráveitu- og úrgangsmál vera í samræmi við lög og reglugerðir.

Þá var að kröfu Umhverfisstofnunar bætt við ákvæði sem gerir skylt er að óska framkvæmdarleyfis, eða eftir atvikum byggingaleyfis, vegna allra framkvæmda. Sérstaklega sem fela í sér röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki. Á þetta að tryggja að tekið sé til ítarlegrar skoðunar hvort framangreint skilyrði sé uppfyllt.

Jarðareigendur hafa hug á að nýta sér sérstöðu kyrrðar og friðsældar í þessu einangraða og sérstaka umhverfi. og reisa á jörðinni heilsusetur, þar sem fólk getur komist frá því ysi og þysi sem er í nútímasamfélagi. Geirþjófsfjörður er ekki í vegasambandi en hægt er að komast í Trostansfjörð, sem er næsti fjörður við Geirþjófsfjörð. Ofan af veginum á Dynjandisheiði má sjá í Geirþjófsfjörð og ganga þaðan niður.

Krosseyri fór í eyði árið 1945 en var lengi nytjuð frá Bíldudal.

Deiliskipulagssvæðið er um 4.2 ha að stærð og er staðsett á Krosseyri við Geirþjófsfjörð og upp hlíðina frá henni. Á jörðinni er skráð 77,4 fm íbúðarhús byggt 1936.

DEILA