Fram kemur í skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri, RHA, frá 2022 um jarðgöng sem unnin var fyrir Vegagerðina og uppfærð í maí 2023 að Klettháls er versti farartálminn af þeim 22 skoðaður var hvað varðar ófærð. Meðaltal áranna 2010 – 2020 fyrir lokunartilvik er það hæsta eða 32 og eru þau fleiri en á Fjarðarheiði , þar sem þau eru 28. Lokað er í 18 sólarhringa á ári að meðaltali, reiknað út frá lokunarklukkutímum, meðalfjöldi daga þegar lokað er 10 tíma eða lengur í senn. Það er langmesta lokunina, næst er Fjarðarheiði með tæplega 10 sólarhringa og Siglufjarðarvegur er með svipað.
Fjarðarheiði og Siglufjarðarskarðsgöng eru tvö efstu verkefnin á tillögu Vegagerðarinnar og ríkisstjórnarinnar að næstu jarðgöngum en Klettháls er aðeins í 9. sæti. Þá er lagt til að hefja framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng og gera rannsóknir og undirbúa Siglufjarðaskarðsgöngin en engin slík ákvörðun varðandi Klettháls og ekkert fé er sett í þau göng. Innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir lýsti því yfir í vikunni að hún vilji flýta Siglufjarðarskarðsgöngum.
Spurningin er hvers vegna fær Klettháls þessa hraksmánarlegu afgreiðslu hjá Vegagerðinni og ríkisstjórninni þrátt fyrir að vera versti farartálminn?
Línurit úr skýrslu RHA um jarðgöng.
Miklar samgöngutruflanir vegna lokana á Kletthálsi
RHA segir í skýrslu sinni að ástandið hafi verið verst á Kletthálsi hvað varðar ófærð af þeim fjallvegum sem skoðaðir voru og eru með reglubundna þjónustu. „Miklar samgöngutruflanir verða því á
Vestfjarðavegi vegna lokana á Klettshálsi.“ segir í skýrslunni.
Bent er á að samkvæmt snjómokstursreglum er vegurinn um Klettsháls þjónustaður kl. 10:00-17:30 virka daga og kl. 11:30-17:30 um helgar. „Ófærð utan þess tíma er því ekki skráð með sama hætti í upplýsingakerfi Vegagerðarinnar og kann því raunveruleg lokun/ófærð að vera meiri en opinber skráning gefur til kynna.“
Umferð talin munu aukast mikið með bættum vegum á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit og „Klettsháls er því líklegur til að verða hlutfallslega meiri þröskuldur í framtíðinni en hann er í dag og valda meiri
umferðartruflununum.“ Umferð eftir jarðgöng er talin verða fyrta árið 580 bílar á sólarhring að meðaltali yfir árið sem er talsvert meira en umferð um væntanleg Sigufjarðarskarðsgöng – 413 bílar.
Klettsháls er fjarri þjónustumiðstöðvum Vegagerðarinnar sem gerir örðugra um vik að sinna þjónustunni. Auknir flutningar m.a. vegna fiskeldis gera það að verkum að útrýma þurfi hindrunum og að göng munu hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf í landshlutanum.
Veggjöld standa undir 62% af stofnkostnaði og vöxtum
Göng undir Klettsháls henta vel fyrir töku veggjalds segir RHA. Út frá vegstyttingu og tímasparnaði er
í arðsemisútreikningum miðað við veggjaldið 357 kr. fyrir fólksbíla og þrefalt hærra gjald á þunga bíla. Ef jarðgöngin væru fjármögnuð með láni og ef raunvextir á láni væru 1,25% getur það staðið undir 62% af stofnkostnaði og vaxtakostnaði á framkvæmdatíma.
Vegagerðin: jarðgöng ekki mjög brýn
Í jarðgangatillögu Vegagerðarinnar sem unnin var eftir að RHA hafði skilað af sér sinni skýrslu segir að Klettháls sé mikill farartálmi þegar horft sé til færðar og veðurs. En þar sem ferjan Baldur sé til staðar telji Vegagerðin að jarðgöng séu ekki mjög brýn í samanburði við aðra jarðgangakosti.
Þarna er óvænt niðurstaða af hálfu Vegagerðarinnar. Til þessa hefur það verið eindregin afstaða Vegagerðarinnar að telja vegi betri samgöngur en ferjur og hefur stofnunin lagst gegn áframhaldandi rekstri á ferjum svo sem í Ísafjarðardjúpi og bent á kostnað við rekstur á ferjum og talið betra að verja fénu til vegagerðar. Það fer ekki á milli mála að RHA telur jarðgöng undir Klettháls vera brýnt verkefni.
Enginn rökstuðningur er fyrir þessari breyttu afstöðu Vegagerðarinnar og engar upplýsingar um kostnað við kaup og aðstöðusköpun fyrir ferju og rekstur á henni yfir t.d. 20 ára tímabili og það borið saman við jarðgangagerðina.
Bæjarins besta hefur óskað eftir því við Vegagerðina á fá samanburð á stofnkostnaði og rekstri ferjunnar við jarðgöng og nánari rökum fyrir niðurstöðu stofnunarinnar varðandi jarðgöng undir Klettháls.
Vestfirðingar geta ekki unað þessu skeytingarleysi á staðreyndum um brýna þörf fyrirjarðgöng undir Klettháls.
-k