Kjörís hefur ákveðið að innkalla hnetu-Toppís í 5 stk. umbúðum sem fyrirtækið hefur nýlega sett á markað og hefur nú þegar verið dreift í stórmarkaði og matvöruverslanir um allt land.
Varan er með best fyrir dagsetningunni : BF 21.02.26;BF 22.02.26;BF 23.02.26;BF 27.02.26;BF 28.02.26;BF 29.02.26;BF 30.02.26 og strikamerkingunni 5690581572505.
Ástæða innköllunarinnar eru rangar innihaldsmerkingar en viðbótar innihaldsefni hafa slæðst með í innihaldslýsingum á ytri umbúðum. Þar kemur fram að varan innihaldi smjör, þrúgusykur og karamellu sem er rangt og þessum innihaldsefnum því ofaukið í innihaldslýsingu.
Verslanir hafa verið beðnar um að taka vöruna úr sölu og eru sölumenn Kjörís að sækja þessar pakkningar á sölustaði.
Jafnframt tekur fyrirtækið fram að breytingar á umbúðum og innköllun vörunnar tengjast ekki athugasemdum sem Emmessís hefur gert við umbúðir vörunnar og viðvörun þess félags um að það kunni að krefjast lögbanns við dreifingu.