Ísafjörður: glæpakviss á bókasafninu á morgun

Fimmtudaginn 5. september býðst áhugafólki um glæpasögur og spurningakeppnir að taka þátt í einstökum viðburði sem sameinar þetta tvennt, þegar Hið íslenska glæpafélag efnir til laufléttrar en þó skuggalega spennandi spurningakeppni um íslenskar glæpasögur í samstarfi við 21 almenningsbókasafn hringinn í kringum landið.

Keppnin, sem er með hefðbundnu kráarkeppnissniði, er ýmist haldin á bókasöfnunum sjálfum eða á kaffi- eða öldurhúsi í næsta nágrenni, og spurningarnar eru alstaðar þær sömu, þótt umhverfi, veitingar og verðlaun séu með ýmsum hætti.

Allir unnendur glæpasagna – og spurningakeppna eru hvattir til að fjölmenna og taka þátt í fordæmalausri og þaulskipulagðri glæpagleði!

Glæpakvissið er liður í  Glæpafári á Íslandi, afmælisdagskrá Hins íslenska glæpafélags, sem fagnar 25 ára tilvist sinni og velgengni íslenskra glæpasagna í ár með fjölmörgum og fjölbreytilegum viðburðum víða um land. Flestir – en þó ekki allir – viðburðir Glæpafársins eru haldnir í samvinnu við almenningsbókasöfn landsins. Allar upplýsingar um kvissið og aðra viðburði Glæpafársins má finna á Facebook-síðu Hins íslenska glæpafélags: https://www.facebook.com/hidislenskaglaepafelag (og hér er kvissið sjálft: https://www.facebook.com/events/1145274173237578?ref=newsfeed

Á Ísafirði verður spurningakeppnin í Safnahúsinu í bókasafninu og hefst kl 16:30.



DEILA