Ísafjarðarhöfn: 140 m.kr. af einu skipi

Hafnarstarfsmenn við síðasta skipið í sumar. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Á föstudaginn kom síðasta skemmtiferðaskip ársins til Ísafjarðar. Það var Norwegian Prima og var það með um 3.000 farþega. Þetta er stærsta skipið sem kemur til Ísafjarðar og er 145.535 brúttótonn.

Norwegian Prima kom 14 sinnum til Ísafjarðar í sumar. Tekjur hafnarinnar í hvert sinn eru um 10 m.kr. svo það hefur skilað um 140 m.kr. í kassann til sveitarfélagsins.

Ísafjarðarhöfn hefur tekið saman upplýsingar um skipið. Það er nýlegt, smíðað 2022 á Ítalíu. Farþegum um borð í Norwegian Prima býðst alls kyns afþreying eins og gengur og gerist. Í viðbót við allt það sem telst venjulegt í svona skipum, sundlaugar, sólbaðsgarðar og þess háttar, er t.d. hægt að spila minigolf og pílugast, tölvuleiki í sýndarveruleika og síðast en ekki síst er þarna að finna go-kart kappakstursbraut og rennibrautir á milli hæða. Mikið er lagt upp úr lifandi tónlist um borð og svo er auðvitað mikilvægt að farþegarnir svelti ekki. Í skipinu er að finna mathöll með 11 veitingastöðum, auk þess sem aðra veitingastaði og bari er að finna hér og þar í skipinu.

Norwegian Prima er skip sem ætlað er að höfða til breiðs hóps viðskiptavina. Stærsti hluti farþeganna eru pör og barnafjölskyldur, en skipið nýtur líka vinsælda á meðal einhleypra enda er talsvert um eins manns káetur um borð, nokkuð sem ekki er í boði á öllum skipum. Viðburðir sem sérstaklega eru ætlaðir hinsegin fólki eru líka reglulegur hluti af afþreyingardagskránni.

DEILA