Suðurverk vinnur að því þessa dagana að ljúka við að setja slitlag á nýjan vegarkafla á norðanverðri Dynjandisheiði sem endar við Dynjandisá. Þegar því verður lokið verða um 6,5 km milli slitlagsenda að nýja veginum í Dynjandisvoginum.
Útboði á lokakaflanum hefur ítrekað verið frestað og hefur Vegagerðin ekki vilja gefa neitt út um það hvenær það verður.
Búist er við því að verktakinn taki saman nú í haust tæki og vinnubúðir og flytja af heiðinni.
Bæjarins besta sendi fyrirspurn til Gylfa Ólafssonar, formanns bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjori og innti þau eftir því hvort Ísafjarðarbær hafi farið fram á það við stjórnvöld að þegar í stað verði haldið áfram.
Í svörum Gylfa Ólafssonar segir að Ísafjarðarbær hafi ýtt á þessi mál beint og í gegnum Vestfjarðastofu, bæði í umsögnum um þingmál og í samtölum við stjórnmálamenn á ýmsum vettvangi. „Þá bindum við vonir við að áhersla atvinnulífsins á málin í gegnum Innviðafélagið verði spark í rass stjórnvalda.“
Óskýr svör stjórnvalda
Gylfi bætti við „Það sem hefur náttúrulega gert umræðu um Dynjandisheiðina afkáralegri er að svör stjórnvalda og Vegagerðarinnar og stjórnmálamanna hafa aldrei verið skýr heldur hafa þau dregið svör og gefið ádrátt um eitthvað sem ekki hefur orðið. Það er alveg rétt hjá þér að það verður að klára þetta. Tækifærið er núna áður en vélarnar fara og kostnaður við flutning tækja fram og til baka bætist við.“
Gylfi sagði umbyltinguna sem Dýrafjarðargöng, þverun Þorskafjarðar og verulegar vegbætur á Dynjandisheiðinni hafa skapað vera óumdeilda, meðal annars í samþættingu samfélaganna á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum, sem og styttingu aksturstíma til og frá höfuðborgarsvæðinu.
Óþolandi staða
„Í þessari syrpu eru það þverun fjarðanna á suðursvæðinu og þessir örfáu kílómetrar á Dynsunni sem eru eftir, en að því loknu eru engin göng sem gert er ráð fyrir að opni fyrr en 2039. Sú staða er óþolandi, en einmitt í því ljósi ætti ekki að láta afgreiðslu þessara samgöngubóta dragast. Vestfirðir hafa þrefaldað verðmætasköpun sína á síðustu 7 árum, og þar eru það ekki bara útflutningsvörurnar sem þurfa að komast á milli, heldur einnig starfsfólkið í þeim geirum og öðrum tengdum.
Við þurfum að fara áfram veginn og ekkert stopp.“
Hann er glæsilegur nýi vegur yfir Dynjandisheiði.
Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.