Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fékk Sigurður Arnar Jónsson, slökkviliðsstjóra í Ísafjarðarbæ til fundar við sig í gærmorgun til þess að ræða hættuástand sem skapaðist síðastliðinn föstudag vegna elds í farþegarútu nálægt Vestfjarðagöngum.
Málsatvik rútubruna síðastliðinn föstudag voru rædd, svo og viðbúnaður slökkviliðs og verkaskipting gagnvart Vegagerð. Farið var yfir viðbragðsáætlun slökkviliðs kæmi til þess að eldur kæmi upp í göngunum sjálfum og mögulegar viðbætur í göngunum til að auka umferðaröryggi.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að óska eftir fundi með Vegagerðinni á næsta fundi bæjarráðs.
Bæjarráðið bókaði að það „lýsir yfir áhyggjum um að viðbragðsáætlanir hafi ekki verið uppfærðar, sérstaklega í ljósi vaxandi umferðarþunga stærri ökutækja og farþegaflutninga um göngin. Meðan beðið er eftir tvöföldun Vestfjarðaganga er mikilvægt að uppfæra öryggisatriði og koma m.a. á FM sambandi til að hægt sé að miðla upplýsingum.“
Aðspurður hvort bókunin þýddi að bæjarráðið vilji tvöfalda Vestfjarðagöngin, báða leggi eða bara Breiðadalslegginn svaraði Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs því til að „við viljum tvöfalda Vestfjarðagöngin, og ef það er ekki gert saman þá hljóti að vera best að byrja á Breiðadalsleggnum.“
Hann bætti við: „Þar sem þær framkvæmdir eru fyrirsjáanlega langt í framtíðinni er aðalmálið núna að Vegagerðin svari því til hvaða aðgerða og fjárfestinga hún telur best að fara í núna til að tryggja öryggi í þessum jarðgöngum eins og öðrum göngum hringinn í kringum landið. Í tilviki Vestfjarðaganganna munu ýmsar öryggisráðstafanir einnig bæta upplifun og umferðartíma, til dæmis ef útvarpssendingar eru settar inn, farsímasamband bætt og umferðarstýringu er komið á.“
Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs.