Ísafjarðarbær: framkvæmdir við íþróttamannvirki hækka um 61,3 m.kr.

Kerecis völlurinn á Torfnesi er glæsilegur. Mynd: Ásgeir Hólm.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt breytingar á fjárhagsáætlun 2024 vegna breytinga á framkvæmdaáætlun 2024. Framkvæmdir A hluta hækka úr 350 m.kr. í 428,2 m.kr. og framkvæmdir B hluta lækka jafnmikið eða úr 598,5 m.kr. í 520,3 m.kr. 

Helsta breytingin er að framlög til íþróttamannvirkja hækka um 61,3 m.kr. vegna gervigrasvallarins nýja á Torfnesi og verður liðurinn 161,3 m.kr. Í skýringum kemur fram að aukning kostnaðar skýrist af vanáætlun í efniskaupum sem og viðbótum vegna lagna undir Torfnesvöll. Jafnframt barst ekki styrkur KSÍ vegna uppbygginga aðalvallar fyrir árið 2024. Vegna æfingarvallar var styrkur 9 m.kr. fyrir árið 2023.

Þá er 12 m.kr. aukning vegna kaupa á körfubíl fyrir Slökkviliðið og sama fjárhæð vegna kaupa á bifreið fyrir Áhaldahúsið. Uppsetning á eldvarnarkerfi í Félagsheimili Þingeyrar hækkar fjárfestingu ársins um 1 m.kr.

Fjárveiting til Sólborgar er lækkuð um 9 m.kr. vegna frestunar lóðarframkvæmdar en hún var 15 m.kr. Þá verður frestað hluta af framkvæmdum við Safnahúsið. Um er að ræða endurnýjun glerja sem er tímafrekt verk og fyrirsjáanlegt að klárist ekki á 2024. Alls eru það 11 m.kr. af 47 m.kr. sem frestast.

DEILA