Ísafjarðarbær: eldsvoðinn ræddur í bæjarráði

Rútan brann til kaldra kola. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bruninn á rútu í Tungudalnum á föstudaginn verður ræddur í bæjarráði Ísafjarðarbæjar nú fyrir hádegið. Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs staðfestir það. Hann segir að bæjarráðið vilja fá frá fyrstu hendi greinargóða frásögn af atburðunum eins og þeir horfa við slökkviliði Ísafjarðar, hvaða viðbúnað það er með og upplýsa um verkaskiptingu gagnvart Vegagerðinni. Sigurður A Jónsson, slökkviliðsstjóri mætir á fundinn.

Jarðgöngin dauðagildra

Hverfisráð Súgandafjarðar hefur efnt til undirskriftarsöfnunar á netinu vegna eldsvoðans. Þar segir eftirfarandi:

„Þessi listi er til þess að krefjast þess að bæði Isafjarðarbær og ríkið taki því alvarlega hversu mikið dauðagildra göngin eru. Bæði vegna þess að þau eru einbreið í tveimur afleggjurum og vegna klæðningar sem þar er. Ef eldur læsir sig í þessar klæðningar þá voðinn vís. Við tryggjum ekki eftirá.“

Ólöf Birna Jensen formaður hverfisráðsins segir í færslu á facebook :

„viljum við í hverfisráði Súgandafjarðar vekja athygli á alvarleika málsins, segjum sem svo að eldurinn hafi kviknað í rútunni inn í göngunum. Hefðu þessir ferðamenn komist lífs af? Hefði eldurinn læst sig í klæðningunni inn í göngunum? Hefðu hinar rúturnar geta snúið við til að komast til baka út Súgandafjarðar megin eða Önundarfjarðar megin? Hvað með fólkið sem var á einkabílum? Við erum að tala um 4 rútur af ferðamönnum sem gera ca 200 manns við erum að tala um ca 8 einkabíla og 1 smárútu sem sjá má á myndum með fréttunum af atvikinu. Fyrir mér eru það aðeins of mörg líf til að hugsa út í ef þetta hefði ekki farið svona vel. Hvað ef þetta fer ekki svona vel næst? Hver ber þá ábyrgð? Er það Ísafjarðarbær? Er það ríkið? Er það ferðaþjónustan?“

Í gærkvöldi höfðu 255 skrifað undir.

DEILA