Innviðaráðherra: forgangsröðun breikkunar í Vestfjarðagöngum tók tillit til áhættu á bruna í einbreiðum göngum

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. Mynd: visir.is

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra sagði á Alþingi á mánudaginn í svari við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþm. að forgangsröðun jarðganga sem ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi á síðasta þingi hefði tekið mið af mati á áhættu á eldsvoða í bíl í einbreiðum göngum. Í tillögunni er breikkun Breiðadalshluta Vestfjarðaganga sett í 6. sæti á forgangslistanum sem tók til 10 jarðganga.

Ráðherrann viðurkenndi hins vegar að ekki væri til sérstök áætlun um varaleiðir vegna bruna en í flestum tilfellum væri um slíka leið að ræða. Það væri svo fjallað í áhættumats- og viðbragðsáætlun hverra ganga um þörf á varaleiðum.

Í svörum ráðherra kom fram að viðbragðsáætlun hefði verið gerð fyrir hver göng þegar þau voru tekin í notkun og að áætlunin væri uppfærð á fimm ára fresti. Ábyrgð á því að slökkviliðsæfingar séu haldnar liggi hjá sveitarfélögum og slökkvilið á hverjum stað beri ábyrgð á því að móta brunavarnaráætlun þar sem m.a. er tekið á brunavörnum í jarðgöngum, þar með talið búnaði og þjálfun slökkviliðsmanna. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með og samþykkir brunavarnaráætlun. Stofnunin tók út öll slökkvilið landsins árið 2022 og gaf út skýrslu um það.

DEILA