Heimastjórn Patreksfjarðar: vilja flýta Suðurfjarðagöngum

Mynd úr jarðgangaskýrslu Vegagerðarinnar frá júní 2023.

Heimastjórn Patreksfjarðar afgreiddi á fundi sínum í gær eftirfarandi bókun um Suðurfjarðagöng undir Mikladal og Hálfdán:

„Heimastjórn Patreksfjarðar fagnar því að aukin áhersla sé lögð á að flýta undirbúningi jarðgangaframkvæmda í jarðgangaáætlun samgönguáætlunar, til að tryggja öryggi vegfarenda, m.a. með vísan til umfjöllunar umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis 2. september sl. um að flýta jarðgangaframkvæmdum á norðanverðu landinu.

Heimastjórn Patreksfjarðar telur afar brýnt að flýtt verði undirbúningi og framkvæmd nauðsynlegra rannsókna vegna jarðgangaframkvæmda undir Mikladal og Hálfdán, Suðurfjarðagöng,  á milli byggðakjarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Suðurfjarðagöng eru skv. jarðgangaáætlun Vestfjarða frá 2021 og ályktunar 68. Fjórðungsþings Vestfirðinga í október 2023 næstu jarðgöng sem ráðast skal í á Vestfjörðum ásamt Álftafjarðargöngum, en engum jarðgöngum er til að dreifa á sunnanverðum Vestfjörðum og ekki aðrar samgönguleiðir í boði fyrir íbúa en aka yfir fjallvegi allt árið um kring, til að sækja þjónustu og vinnu.

Heimastjórn Patreksfjarðar bendir á þá áherslu sem lögð var á Suðurfjarðagöng í aðdraganda sameiningar sveitarfélaganna í vor og nauðsyn þess að tryggja að samgöngur innan sveitarfélagsins Vesturbyggðar séu öruggar. Brýnt er að tryggja öruggar samgöngur milli byggðakjarnanna til að íbúar og fyrirtæki geti notað grunnþjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu án áhættu árið um kring. Má í því sambandi benda á sjúkraflug á flugvöllinn á Bíldudal en þangað er yfir tvo erfiða fjallavegi að fara.

Heimastjórn Patreksfjarðar hvetur því bæjarstjórn Vesturbyggðar til að þrýsta á að undirbúningi og nauðsynlegum rannsóknum vegna Suðurfjarðaganga verði flýtt í samgönguáætlun, til að tryggja öryggi íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, bæta aðgengi að grunnþjónustu og tryggja atvinnusókn innan sunnanverðra Vestfjarða.“

DEILA