Heildarafli íslenskra skipa árið 2023 var 1.375 þúsund tonn sem er 3% minni afli en landað var árið 2022. Aflaverðmæti við fyrstu sölu jókst um 1% á milli ára og nam rúmum 197 milljörðum króna árið 2023.
Alls veiddust tæplega 402 þúsund tonn af botnfiski sem er 7% minna en árið 2022. Á sama tíma dróst aflaverðmæti botnfiskaflans saman um 7%, úr 136 milljörðum króna í 126 milljarða króna.
Af botnfiski var þorskaflinn alls 220 þúsund tonn árið 2023 og aflaverðmæti hans við fyrstu sölu nam tæplega 81 milljarði króna.
Afli uppsjávartegunda var rúm 946 þúsund tonn árið 2023 sem er um 1% minni afli en árið 2022. Af uppsjávarafla veiddist mest af loðnu, tæp 326 þúsund tonn og tæp 293 þúsund tonn af kolmunna. Aflaverðmæti uppsjávaraflans jókst um 22% frá fyrra ári og var 58 milljarðar króna sem skiptist nokkuð jafnt á milli kolmunna, loðnu, makríls og síldar.
Af flatfiski veiddust tæp 21 þúsund tonn árið 2023 að verðmæti 12 milljarða króna. Löndun skelfiska og krabbadýra dróst saman um 5% og var tæplega 5,8 þúsund tonn að verðmæti 1,2 milljarða króna.