Borist hafa svör frá Hafrannsóknarstofnun við fyrirspurnum sem send voru 24. júlí sl. um villta laxastofninn og ítrekuð tvisvar. Spurt var um skilgreiningu á nytjastofni lax, í hvaða ám væri nytjastofn og hver áætlaður hrygningarstofn er í hverju tilviki.
Tilefnið var að 13. maí sl. greindi Morgunblaðið frá því að samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar var stærð hrygningarstofns villta laxins við Ísland um tuttugu þúsund fiskar síðastliðið haust, að afloknum veiðitíma. Stofnunin hafi kynnt þetta mat sitt á aðalfundi Landssambands veiðifélaga sem haldinn var í Húsafelli síðari hluta aprílmánaðar.
Í svörum Guðna Guðbergssonar, sviðsstjóra segir að við mat á áætlaðri heildarstærð hrygningarstofns villtra laxa á Íslandi sé gengið út frá skráðri netaveiði og stangveiði villtra laxa (hafbeit ekki meðtalin) og meðaltals veiðihlutfalli þar sem það er ekki þekkt. „Frá 1996 er leiðrétt fyrir þeim fjölda sem er veitt og sleppt. Það er sú mynd sem kemur fram í þeirri frétt sem vitnað er til. Gögn fyrir árið 2024 liggja ekki fyrir.“
Þá segir: „Stærð hrygningastofns hverrar ár getur verið breytilegur á milli ára. Þau viðmið sem almennt eru notuð eru að reikna viðmiðunarmörk fyrir hrygningu þ.e. hversu stóran hrygningarstofn í fjölda hrogna talið þarf að meðaltali til að nýta framleiðslugetu viðkomandi ár það sem er umfram er það sem er til skiptanna fyrir veiði. Ef stofnstærð er undir viðmiðunarmörkum hefur stofninn ekki veiðiþol.“
Ennfremur: „Það má við bæta að stofn sem nýttur er til veiði þarf að þola þá veiði án þess að gengið sé á stofninn, stofnhluta eða að líffræðilegan fjölbreytileika. Mat á stofnstærðum getur byggt á t.d. beinum talningum ef um fiskteljara er að ræða. Í fleiri tilfellum er byggt á veiðitölum þar sem ekki er um beinar talningar að ræða. Þar sem bæði talningar og veiðiskráning liggur fyrir hafa komið fram tengsl á milli stofnstærðar og veiði og því hægt að reikna veiðihlutfall. Þar sem einungis veiðitölur liggja fyrir er má áætla stofnstærð út frá þekktu veiðihlutfalli í sambærilegum vatnakerfum.“
Engin svör eru gefin við spurningunni í hvaða ám væri nytjastofn og hver áætlaður hrygningarstofn er í hverri á þrátt fyrir að kynnt hafi verið opinberlega mat stofnunarinnar á heildarstæð hrygningarstofnsins.
Nytjastofn: villtur lax og ræktaður lax veiðifélaga
Fram kemur í svörunum að skilgreining á nytjastofni væri eftirfarandi samkvæmt frumvarpi um lagareldi sem lagt var fyrir Alþingi á síðasta vetri : „Fiskstofn villtra laxa sem er nytjaður, eða kann að verða nytjaður, í íslenskri fiskveiðilandhelgi, í ám eða vötnum. Til villtra nytjastofna lax teljast annars vegar laxastofnar þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum og hins vegar laxastofn í veiðiám þar sem samþykkt hefur verið fiskræktaráætlun.“