Gott að eldast í Vesturbyggð

Fimmtu­daginn 5. sept­ember kl. 14:00-17:00 verður haldinn kynn­ing­ar­fundur á verk­efninu Gott að eldast í fund­arsal félags­heim­ilis Patreks­fjarðar.

Á fundinum verður samningur Vesturbyggðar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um samþætta heimaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum kynntur, tómstundafulltrúi Vesturbyggðar segir frá styrkúthlutun frá EBÍ sem sveitarfélagið hlaut fyrir heilsueflingu eldri borgara á svæðinu og að lokum munu Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur og Svavar Knútur tónlistarmaður flytja erindið Vitundarvakning um heilbrigða öldrun: áhrif félagslegrar einangrunar á lífsgæði.

Meginþungi aðgerða liggur í þróunarverkefnum sem ganga út á að finna góðar lausnir sem samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.

Allar aðgerðir miða að því að tryggja virkara og heilsuhraustara eldra fólki þjónustu sem stuðlar að því að sem flest þeirra séu þátttakendur í samfélaginu – sem allra lengst.

Í lok fundar er boðið upp á kaffi og kynningu á pokavarpi og Boccia.

DEILA