Haustdagur Gott að eldast fór fram á dögunum en þar kom saman fólk héðan og þaðan af landinu sem tekur þátt í þróunarverkefnum um samþætta heimaþjónustu.
Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög voru í fyrra valin til þátttöku í verkefnunum og á haustdeginum hittist fólk af öllum svæðunum í fyrsta skipti.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og sveitarfélögin Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur og Vesturbyggð var eitt þessara sex svæða sem valið var til þátttöku
Með aðgerðaáætluninni Gott að eldast taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti. Ein meginaðgerð áætlunarinnar er að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum.
Markmið þróunarverkefnanna er að finna góðar lausnir hvað þetta varðar og flétta saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Öll þjónusta fyrir eldra fólk í heimahúsum er þá á hendi eins aðila.
Haustdagurinn var fyrir starfsfólk þeirra svæða sem taka þátt í þróunarverkefnum um samþætta þjónustu og kynnti það hvert fyrir öðru hvernig gengið hefði og hvað væri fram undan í vetur.