Fiskeldisgjald: hækkun boðuð eða ekki

Teitur Björn Einarsson, alþm.
Teitur Björn Einarsson, alþm. í ræðustól á Fjórðungsþingi Vestfirðinga.

Í fjarlagafrumvarpi ríkisstjornarinnar er boðið hækkun á fiskeldisgjaldi af sjókvíaeldi úr 4,3% í 5% af alþjóðlegu meðalverði á eldislaxi. Þar segir að gert hafði verið ráð fyrir að hækka gjaldið úr 3,5% í 5% í fjárlögum ársins 2024, „en ákveðið var að áfangaskipta hækkuninni. Því kemur seinni áfanginn til framkvæmda í fjárlögum ársins 2025 og er gert ráð fyrir að tekjur aukist um 300 m.kr. vegna breytingarinnar.“

Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar frá desember 2023 þegar afgreiddar voru lagabreytingar tengdar fjárlögum yfirstandandi árs segir að fara þurfi hægar í sakirnar varðandi hækkun fiskeldisgjaldsins og „miðað við þær tekjuáætlanir sem birtast í fjármálaáætlun sé rétt að hækka gjaldið um 0,8 prósentustig en ekki 1,5 prósentustig eins og lagt er til í frumvarpinu. Leggur meiri hlutinn til breytingu til samræmis við framangreint.“

Ekki frekari hækkun

Bæjarins besta innti Teit Björn Einarsson alþm, formann þingnefndarinnar, eftir því hvort það hafi verið niðurstaðan meirihluta nefndarinnar í fyrra að hækka gjaldið í áföngum og að nú ætti að hækkað það í 5%.

„Nei það er alveg skýrt að við afgreiddum þetta sem endanlega hækkun, það var enginn umræða um að þetta væri áfangaskipt og seinni hluti kæmi þá fram að ári.“

Teitur Björn bætti því við að það sem var horft til, „og sem ein rök fyrir að draga úr hækkuninni (úr 5% í 4,3%), var að von væri á tillögu um nýtt fyrirkomulag gjaldtöku, sem kom svo fram í frumvarpi sl vor. Þetta skýtur því skökku við, og það á sam tíma og enn er rætt um hvernig móta eigi nýtt gjaldtökufyrirkomulag skynsamlega.“

Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp með fjárlagafrumvarpinu þar sem tilgreindar eru lagabreytingar sem grípa þarf til vegna fjárlaganna. Þar er ekki að finna tillögu um frekari hækkun fiskeldisgjaldsins.

Fiskeldisgjaldið var sett á með lögum frá 2019 sem 3,5% og verður innleitt í sjö áföngum og gjaldið hækkar því um 1/7 á hverju ári fram til 2026 þegar það verður komið að fullu til framkvæmda. Hækkunin í fyrra í 4,3% eykur á árlega hækkun. Á næsta ári verður hækkun og það verður 6/7 hlutar gjaldsins komið á.

Á árinu 2024 er gjald á hvert kílógramm slátraðs lax 30,77 kr. og gjald á hvert kílógramm slátraðs regnbogasilungs 15,39 kr. Hækkaði gjaldið um 23% milli ára.

Til samanburðar er veiðigjald 2024 af óslægðum þorski 26,66 kr/kg.

DEILA