Fiskeldi: framleiðslugjald tólffaldaðist á þremur árum

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Framleiðslugjald sem fiskeldisfyrirtæki greiða í ríkissjóð tólffaldaðist á aðeins þremur árum. Árið 2020 voru innheimtar 53 m.kr. en árið 2023, þremur árum síðar, var framleiðslugjaldið 643 m.kr. eða tólffalt hærra en fyrsta árið. Samtals var innheimt á þessum fjórum árum 1.289 m.kr.

Þetta kemur fram í skýrslu Matvælaráðherra á Alþingi þar sem svarað er beiðni níu alþingismanna, undir forystu Höllu Signýju Kristjánsdóttur (B) um gjaldtöku í sjókvíaeldi.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir framleiðslugjaldinu og umhverfissjóðsgjaldi og þeim tekjum sem þau hafa skilað.

Ekki var litið til gjaldtöku sem innheimt er til að standa undir sérstakri fyrir fram skilgreindri þjónustu,
til að mynda þjónustugjöld sem Matvælastofnun og Umhverfisstofnun innheimta fyrir eftirlit eða aflagjalda sem sveitarfélög innheimta vegna aðgengis og þjónustu af höfnum og eru því ekki upplýsingar um þær greiðslur eldisfyrirtækjanna.

Af framleiðslugjaldinu rennur um þriðjungur í Fiskeldissjóð sem síðan úthlutar því til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldi er stundað og þurfa þau að sækja um til sjóðsins. Á þremur árum 2021-2023 úthlutaði sjóðurinn 538 m.kr. til sveitarfélaganna átta sem geta sótt um. Þar af eru sex á Vestfjörðum, nú fimm eftir sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðar.

Ekki eru upplýsingar um innheimt gjöld fyrir 2024, en úthlutun Fiskeldissjóðs 2024 var 437 m.kr. og hefur aldrei verið hærri. Samtals er því úthlutun Fiskeldissjóðs á fjórum árum 2021-2024 nærri einn milljarður króna, eða nákvæmlega 975 m.kr.

Ætla má að Fiskeldisgjaldið fyrir yfirstandandi ár verði meira en milljarður króna.

Fiskeldisgjaldið er á þessu ári 37,8 kr./kg. og á eftir að taka frekari hækkun næstu tvö árin.

Umhverfissjóður 1,7 milljarðar króna

Innheimt hefur verið í Umhverfissjóð sjókvíaeldið nærri 1,7 milljarður króna á tíu árum frá 2014 til 2023. Hefur það verið um 330 m.kr. hvort ár síðustu tvö árin.

Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Greitt er fast gjald um 3.600 kr. á hvert tonn sem heimilt er að framleiða.

DEILA