Á innvest.is, vefsíðu Innviðafélags Vestfjarða er rakin saga fjárveitinga til nýs vegar yfir Dynjandisheiði frá því að samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2024 var samþykkt um mitt ár 2020.
Þá voru settar 5.800 m.kr. til verksins , 5.600 m.kr. á árunum 2020-2024 og 200 m.kr. lokagreiðslu á árinu 2025. Framan af gekk verkið vel og var frekar á undan áætlun fram til loka 2022. En á árinu 2023 verða breytingar og þá um haustið var lögð fram ný samgönguáætlun og þar kvað við annan tón varðandi Dynjandisheiði. Lagt var til að lækka fjárveitingu ársins 2023 um 650 m.kr. og lengt í framkvæmdatíma um tvö ár. Lokafjárveitingin 200 m.kr. var færð til 2027, sem er seinkun um 2 ár.
Nýja samgönguáætlunin var ekki samþykkt og dagaði uppi á Alþingi. Beðið er eftir því að ríkisstjórnin leggi fram að nýju samgönguáætlunina. Ekki er vitað hvort hún verði eins og sú í fyrra eða hvaða breytingum hún kann að taka. Ekki er útilokað að frekari seinkun verði á framkvæmdum.