Bolungavík: Kristján Jón hættur í bæjarstjórn

Kristján Jón Guðmundsson, fyrrv. bæjarfulltrúi í Bolungavík.

Kristján Jón Guðmundsson fékk í gær lausn frá störfum sem bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Bolungavíkur þegar erindi hans var samþykkt á fundi bæjarstjórnar.

Bæjarstjórnin samþykkti eftirfarandi bókun:

„Bæjarstjórn Bolungarvíkur vill þakka Kristjáni Jóni fyrir alla þá óeigingjörnu vinnu sem hann hefur unnið í þágu sveitarfélagsins og jafnframt þann tíma sem Kristján Jón hefur sinnt í bæjarstjórn. Bæjarstjórn Bolungarvíkur óskar Kristjáni Jóni velfarnaðar.”

Kristján Jón tók sæti í bæjarstjórn eftir kosningarnar 2018. Hann var í þriðja sæti D listans við síðustu bæjarstjórnarkosningar.

Kristján Jón sagði í samtali við Bæjarins besta um ástæður þess að hann kaus að hætta að þær væru persónulegar. Hann hefði mikið að gera i vinnunni sem skrifstofustjóri hjá Kampa á Ísafirði.

Kristján Jón er annar bæjarfulltrúinn sem hættir í bæjarstjórn Bolungavíkur á yfirstandandi kjörtímabili. Oddviti listans Baldur Smári Einarsson ákvað að hætta þegar hann tók við yfirmannsstöðu hjá Arctic Fish.

Sæti Kristjáns Jóns tekur Anna M. Preisner, þjonustufulltrúi.

DEILA