Besta deildin: jafntefli á Ísafirði í gær

Frá leiknum í gær.

Vestri fékk Fylki úr Árbænum í heimsókn í gær á Kerecis völlinn á Ísafirði. Mikið var undir í leik tveggja liða sem berjast um að forðast fall úr deildinni. Ljóst var að liðið sem tapaði leiknum væri komið í erfiða stöðu og leikurinn bar þess merki. Bæði lið spiluðu af varkárni og gættu þess að gefa ekki færi á sér. Niðurstaðan varð markalaust jafntefli þar sem Vestri var greinilega betra liðið og átti fleiri markverð færi. Í síðari hálfleik var nánast um einstefnu að ræða að marki Fylkis þótt færin væru fá og undir lok leiksins gerðu Vestramenn harða hríð að marki Fylkis, en þó án árangurs.

Þar sem bæði KR og HK unnu sína leiki í gær eru Vestri og Fylkir í botnsætunum fyrir lokaumferðina í deildina.

Fyrir liggur hvaða lið munu skipa neðri hluta deildarinnar. Liðin frá 7. – 12. sæti munu eftir umferðirnar 22 leika fimm umferðir hvert við annað. Tvö neðstu liðin að því loknu munu falla úr deildinni.

Vestri á því enn góða möguleika á að halda sæti sínu.

Það var frekar hráslagaelgt á Torfnesinu í gær, en engu að síður voru margir mættir til að styðja Vestra.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA