Alþingi: vilja ný jarðgöng á Tröllaskaga

Mynd af mögulegum Tröllaskagagöngum. Visir.is

Fjórtán alþingismenn hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um ný jarðgöng á Tröllaskaga milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Vilja flutningsmenn láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Tillagan er lögð fram í þriðja sinni. Með Tröllaskagagöngum er einkum rætt um tvo valkosti, segir í greinargerð með tillögunni, annars vegar göng frá Hofsdal yfir í Barkárdal og hins vegar tvenn jarðgöng, fyrst úr Hörgárdal yfir í Skíðadal, sem er inn af Svarfaðardal, og þaðan vestur í Kolbeinsdal í Skagafirði.

Flutningsmenn vilja að hratt verði unnið og að ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. febrúar 2025.

Í rökstuðningi segir að  jarðgöng á Tröllaskaga séu enn meðal helstu áhersluverkefna samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í samgöngumálum og vísað til þess fjallvegurinn um Öxnadalsheiði getur verið verulegur farartálmi yfir vetrarmánuðina. Göngin myndi hafa  í för með sér með öruggara aðgengi íbúa Norðurlands vestra að Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Flutningsmenn telja mjög mikilvægt að göng um Öxnadalsheiði fari ofar á forgangslista samgönguáætlunarinnar því „göng undir Tröllaskaga myndu fela í sér gríðarlega samgöngubót fyrir íbúa Norðurlands og aðra sem þar fara um.“ 

Í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar um jarðgöng eru þrenn göng á Tröllaskaga: Siglufjarðarskarðsgöng milli Siglufjarðar og Fljóta, ný Múlagöng milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar og svo Öxnadalsheiðargöng.

Í umsögn Vegagerðarinnar um tillöguna frá 2020, þegar málið fyrst var lagt fram, segir að göngin verði um 20 km löng og kostnaður af stærðargráðunni 50 – 70 milljarðar króna.

Bæjarins besta innti nokkra flutningsmenn eftir því hvort Tröllaskagagöng kæmu í stað Öxnadalsheiðarganga eða til viðbótar. Engin þeirra hefur svarað því.

Þá voru þeir inntir eftir því hvar þeir vildu að Öxnadalsheiðargöngin væru á forgangslistanum en þau eru neðst á listanum eða í 10. sæti á lista ríkisstjórnarinnar. Aðeins Halla Signý Kristjánsdóttir (B) hefur svarið þeirri spurningu og segir hún í svarinu að „Það er ekki nein ósk um hversu ofarlega þetta fari á listann, en ljóst er að þessi göng eru ekki í forgangi en verið að vekja athygli á þeim“ að öðru leyti vísaði hún á fyrsta flutningsmann tillögunnar Stefán Vagn Stefánsson.

Björn Leví Gunnarsson (P) segir í sínu svari eftirfarandi:

„Við teljum almennt sé að það sé ekki Alþingi að forgangsraða þessum verkefnum. Það er hlutverk þeirra sem búa á þessum svæðum að setja upp forgangsröðunina en Alþingis að sjá um fjármögnunina. Um leið og Alþingi fer að skipta sér af forgangsröðun sem heimamenn eru almennt sáttir við að þá fer allt í klessu. Þá er verið að beita valdi ofan frá til þess að íhlutast í sátt nærsamfélagsins.“

Tillaga ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram í fyrra um jarðgangaáætlun. Ef Öxnadalsheiði verður færð ofar á forgangslistanum blasir við að einhverjir jarðgangakostir á Vestfjörðum verða færðir neðar, örugglega Klettsháls og ef til vill Miklidalur og Hálfdán, kannski fleiri.

Tröllaskagagöng eru ekki á forgangslistanum né á lista yfir göng til síðari skoðunar.

-k

DEILA