Aldrei fleiri viðvaranir gefnar út að sumarlagi

Samtals 77 veðurviðvaranir voru gefnar út í sumar, þar af átta appelsínugular.

Aldrei hafa fleiri viðvaranir verið gefnar út yfir sumartímann frá því að Veðurstofan tók upp nýtt viðvaranakerfi.  

Flestar viðvaranir voru gefnar út í júní, 26 gular og átta appelsínugular. Þær tengdust nær allar norðanóveðrinu  sem geisaði í byrjun mánaðarins. Þá gekk yfir landið norðan- og norðvestan hvassviðri eða stormur ásamt mikilli úrkomu á Norður- og Austurlandi. 18 viðvaranir voru gefnar út vegna hríðar og fimm vegna snjókomu, en 11 vegna vinds.

Júlí var nokkuð rólegri, þá voru 13 viðvaranir gefnar út. Óvenju blautt var á vestanverðu landinu, en sex rigningaviðvaranir voru gefnar út í júlí. Eftirstandandi viðvaranir voru vegna vinds.

30 viðvaranir voru gefnar út í ágúst, en þá var bæði úrkomusamt og hvasst í flestum landshlutum. Um verslunarmannahelgina var varað við hvassviðri á sunnan- og vestanverðu landinu. 22. til 24, ágúst rigndi mikið á norðurhelmingi landsins og við lok mánaðar gerði mikið vatnsveður sunnan- og vestanlands.

Flestar viðvaranir voru gefnar út á Suðausturlandi og Breiðafirði, tíu talsins, en fæstar á höfuðborgarsvæðinu, einungis tvær. Í aðdraganda norðanóveðursins í júní voru gefnar út tvær gular viðvaranir fyrir allt landið, ein vegna vinds og önnur vegna hríðar.

DEILA