Vikuviðtalið: Björn Davíðsson

Ég fluttist vestur eftir rafiðnanám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og fyrst aftur heim á Þingeyri þar sem ég starfaði til sjós á bæði Framnesi I og Sléttanesi, sem háseti en einnig sem kokkur. Ákvað þó eftir tvö ár á sjónum að fara í land og nota menntunina eitthvað. En ber þá síðan alltaf mikla virðingu fyrir sjómönnum sem vinna bæði erfiða og á köflum hættulega vinnu við að búa til peninga fyrir okkur hin að velta á milli okkar. Ég fór þá á Ísafjörð að vinna hjá Ingólfsbræðrum í Pólnum við að smíða, gera við og stilla vogir fyrir frystihúsin. Í einu frystihúsinu vann núverandi kona mín sem ég hafði þá grunaða um að þrífa vogina sína það rækilega að iðulega þurfti að kalla mig til að lagfæra vogina eftir þrifin. Viðurkenni þó að það tók mig smátíma að átta mig á þessu og vogin hætti þá að bila en við höfum nú verið gift í 33 ár og eigum tvö uppkomin börn.

Eftir að Pólstækni var stofnað og tók við vogasmíðinni af Pólnum starfaði ég þar í nokkur ár en tók síðan við sem setjari í H-prenti, sem gaf út Bæjarins besta, þegar það starf losnaði. Þar var ég þar til slettist upp á vinskapinn við eigendurna en þó svo ekki meir en svo að ég starfaði tvívegis þar í afleysingum eftir að ég hætti þar. Þá var ég búinn að kynnast Jóni Arnari Gestssyni frá Suðureyri sem þá var sölumaður fyrir bókhaldsforrit meðfram fiskvinnu á Suðureyri. Eftir að hafa slegist í hóp slægingargengis á Suðureyri haustið 1994 með Jóni ákváðum við að stofna tölvufyrirtæki og fékk það nafnið Snerpa eftir þáverandi tómstundagamni mínu sem var gagnabanki sem var hægt að tengjast yfir símalínur og var einskonar forveri Internetsins. Þetta þýðir líka að Snerpa fagnar 30 ára afmæli í haust og hef ég starfað hjá fyrirtækinu alla þess tíð. Jón Arnar fékk hinsvegar nóg af tölvuvinnunni og snéri sér að hótelrekstri skömmu eftir aldamótin og seldi mér sinn hlut en ég seldi síðan hluta af honum áfram. Framan af var reksturinn bölvað basl og sífelld blankheit. En einhvern veginn þá gekk þetta nú og á þessum tíma var bæði blússandi bóla og svo líka sprungin dotcom-bóla og gilti það um mestallan heiminn. Snerpa rataði þó í gegnum þann ólgusjó, mestmegnis vegna þess að afar varlega var farið í skuldasöfnun. Ég minnist þess þó að þeir sem síst skyldi reyndust okkur Jóni Arnari verri en enginn og get þar nefnt framan af Lífeyrissjóð Vestfirðinga og Byggðastofnun. Byggðastofnun átti þó eftir að bæta sig og komu inn í fjármögnun á félaginu þegar vöxturinn fór að taka við sér og töpuðu engu en græddu á endanum á fjárfestingunni.

Ég hef alltaf verið ákaflega heppinn með starfsfólk og á því mikið að þakka. Þau sem nú vinna í Snerpu eru öll miklir reynsluboltar og hafa mörg hver verið lengi hér enda flest orðnir hluthafar í félaginu. Eins og ég nefndi áður fórum við ávallt gætilega í lánsfjármögnun og sluppum því prýðilega í gegn um hrunið 2008. Þá var innviðauppbygging í hálfgerðu rugli, búið að selja Símann og engin merki um neina uppbyggingu í fjarskiptamálum úti á landi. Upp úr því ákváðum við hjá Snerpu að taka þann kúrs að bíða ekki eftir öðrum en fara sjálf í þessa uppbyggingu með lagningu ljósleiðara. Það má segja að það hafi gengið vel þótt enn sé eitthvað í land með að dekka okkar aðalstarfssvæði sem eru Vestfirðir. En þó erum við búin að leggja yfir 300 km af ljósleiðara síðan fyrir tíu árum þegar þessi ákvörðun var tekin og höfum hlotið viðurkenningar á borð við fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri.

Aðaláhugamálið mitt er vinnan. Það er frábært að vinna við það sem maður hefur áhuga á og hefur gaman af. Ég gæti mín þó á því að eiga einnig frítíma og á frekar von á að bæta í hann þegar við förum að fara að sjá fyrir endann á ljósleiðaravæðingunni.

Skömmu eftir aldamót hafði ég einnig gaman af bæjarpólitík og náði þeim áföngum að sitja fundi bæði í bæjarstjórn og bæjarráði sem varabæjarfulltrúi fyrir Samfylkinguna. Í þeim störfum jókst áhugi minn á atvinnumálum almennt og fékk ég meðal annars fram að Ísafjarðarbær og fleiri, t.d. Byggðastofnun og áðurnefndur lífeyrissjóður lögðu fjárfestingar sínar í sameiginlegt fjárfestingarfélag sem heitir Hvetjandi og er nú virkur þátttakandi í fjölda nýsköpunarfyrirtækja á Vestfjörðum sem þolinmóður fjárfestir. Ég var á tímabili formaður Atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar og endaði svo ferilinn í pólitík sem formaður yfirkjörstjórnar Ísafjarðarbæjar í nokkur ár. Þar vann ég mér helst til frægðar að birtast á sjónvarpsskjám landsmanna í litríkri Hawaiískyrtu. Ég ákvað að hætta í kjörstjórn eftir talningarklúðrið í Borgarnesi án þess þó að hafa átt þar hlut að máli en geng enn í Hawaiískyrtu a.m.k. einu sinni í viku, helst á föstudögum.

Ég viðurkenni fúslega að ég hef mikla skömm á þeim sem hafa mikið við það að athuga að Vestfirðingar ákváðu að gera ,,eitthvað annað” þegar kvótinn var seldur burt. Vestfirðingar tóku þá upp fiskeldi og hefur það verið gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulífið og smærri byggðakjarnar eins og minn gamli heimabær Þingeyri hafa risið upp úr öskustónni við það. Sérstaklega fer í taugarnar á mér þrýstihópur sem felur sig undir nafninu ,,Icelandic Wildlife Fund” og þykist vera dýraverndarsinnar þegar raunin er að þeir vilja fá að græða á og stunda sitt sport sem er laxveiði og telja um leið að laxveiðinni standi ógn af sjókvíaeldi. Hafa þeir t.d. gert mikið úr því að útlendingar hafi fjárfest í fiskeldi og jafnvel keypt íslensku frumkvöðlana út úr greininni. Þeir sjá þó ekki bjálkann í eigin auga þegar breskur milljarðamæringur er allt í einu orðinn stærsti landeigandi á Íslandi í því skyni að eignast laxveiðiár. Þannig að ef ég hef áhugamál fyrir utan vinnuna þá er það helst að kýta við þessa menn sem eru á góðu kaupi sem m.a. stafar frá þessum erlenda landeiganda, við áróðurinn því þeim gengur því miður vel að dreifa falsfréttum um laxeldi.

DEILA