Stýrihópur sem settur var á laggirnar til að skilgreina áherslur Íslands um vernd hafsvæða í íslenskri lögsögu hefur skilað lokaskýrslu.
Áherslur Íslands taka m.a. hliðsjón af markmiðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni en í skýrslunni eru lagðar fram tillögur um áherslur í starfi stjórnvalda og hvaða svæði geta talist til verndarsvæða í hafi með hliðsjón af núverandi stjórnun verndunar og nýtingar.
Stýrihópurinn telur að í ljósi stöðu þekkingar á vistkerfum hafsins sé talsverð áskorun að ná markmiði um verndun 30% efnahagslögsögu Íslands fyrir árið 2030 í skilningi stefnu samningsins um líffræðilega fjölbreytni.
Hins vegar sé raunhæft að stíga strax skref byggð á þeirri þekkingu og því stjórnkerfi sem er til staðar og skilgreina hvernig unnið verði að þessu markmiði á næstu árum.
Að beiðni stýrihópsins vann Hafrannsóknastofnun viðauka við skýrsluna sem inniheldur mat á núverandi reglugerðum. Matið er unnið með tilliti til annarrar virkrar svæðisverndar sem niðurstöður um útnefningu slíkra svæða byggja á.
Að auki eru lagðar fram tillögur um þverfaglega samvinnu innlendra stofnana.
Skýrsluna má nálgast hér.