Haukur Árni Hermannsson, eftirlitsmaður hjá Vegagerðinni segir það vera misskilning hjá Bæjarins besta að unnið hafi verið að lagningu á slitlagi á vegarkafla í Dölunum í vikunni milli Fellsenda og Erpsstaða.
Hann segir að í fyrradag hafi verið klárað að keyra út viðbótarburðarlagsefni sem til stendur að sementsfesta áður en slitlag verður svo lagt yfir það. Það átti að halda áfram við þessa vinnu í gær föstudag og um helgina en fresta varð þessum aðgerðum vegna vatnsveðurs sem nú gengur yfir svæðið. Af þessum sökum er vegyfirborð á þessum kafla laust í sér og getur verið varasamt ef ekki er ekið skv. merkingum á svæðinu segir Haukur Árni.
Aðspurður um það hvenær slitlagið verði lagt svaraði Haukur Árni því til að það verði gert strax í kjölfar af þessari sementsfestun, s.s. í næstu viku ef veður leyfir sem stefnir alveg í skv. veðurspá.