Í tilkynningu frá Háskólasetri Vestfjarða, íslenskunámskeiðum er vakin athygli á því að tvö skilti átaksins Gefum íslensku sjens hafa verið tekin ófrjálsri hendi:
Sennilega hefir átakið Gestir skemmtiferðaskipana gefa íslensku séns ekki farið framhjá mörgum Ísfirðingum. Er það von okkar sem að átakinu stöndum að það hafi almennt vakið lukku og ánægju meðal ferðamanna svo og aðila þjónustugeirans á Ísafirði. Alltént hefir okkur ekki borist annað til eyrna. Auk þess hafa Ísfirðingar og aðrir almennt lýst yfir ánægju sinni með uppátækið.
Því er mjög leitt að þurfa að greina frá því að búið er að stela tveim skiltum átaksins. Annað þeirra var staðsett við Silfurtorg hitt við strætóskýlið við Pollgötu. Þjófnaðurinn hefir verið tilkynntur til lögreglu enda kostar hvert skilti dágóðan skildinginn auk þess sem mest allt starf Gefum íslensku séns er unnið í sjálfboðavinnu og þar með talið að hengja upp skiltin. Gefum íslensku séns ríður ekki feitum hesti hvað fjármuni varðar og er þetta því tilfinnanlegt tjón. Við biðjum auðvitað viðkomandi aðila um að skila skiltinu eða skiltunum. Það má gera í Háskólasetur Vestfjarða eða skilja það eftir þar fyrir framan bygginguna.