Sindragata 4A: byggingaráform felld úr gildi

teikning frá Sei arkitektum sem sýnir afstöðu byggingarinnar.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform fyrir lóðina að Sindragötu 4A.

Úrskurðurinn var kveðin upp á mánudaginn.

Samandregin niðurstaða nefndarinnar er að  hin kærða ákvörðun sé haldin svo verulegum annmörkum að fella verði hana úr gildi.

Tildrög málsins eru þau að á Wardstúni var gert ráð fyrir nýbyggingum í deiliskipulagi frá 1998. Með breytingu á deiliskipulaginu sem gerð var árið 2018 var lóð nr. 4 við Sindragötu skipt í tvær lóðir, þ.e. nr. 4 og 4A. Á síðarnefndu lóðinni var gert ráð fyrir tveimur íbúðarbyggingum með samtals 20–23 íbúðum og nýtingarhlutfall um leið hækkað úr 0,5 í 1,0 í samræmi við stefnu Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008–2020 um þéttingu byggðar.

Hafði með hinni kærðu ákvörðun verið samþykkt að byggt verði á lóðinni byggt þrílyft íbúðarhús með níu íbúðum og kjallara.

Kærendur voru íbúar og fasteignareigendur að Sindragötu 4A og Aðalstræti 8, 10 og 16 á Ísafirði. Úrskurðarnefndin hafnaði aðild  íbúa Aðalstrætis 16 og taldi að hagsmunir þeirra skerist ekki á nokkurn hátt hvað varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn en samþykkti aðild hinna kærendanna.

Kærendur töldi að byggingarmagn á lóðinni væri komið yfir hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt deiliskipulagi.

Af hálfu Ísafjarðarbæjar var vísað til þess að ágreiningur málsins væri í reynd ekki um nýtingarhlutfall heldur um að sambærileg bygging og gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi verði byggð á lóðinni. Í deiliskipulagi væri gert ráð fyrir að á lóðinni verði tvær íbúðarbyggingar með samtals 20–23 íbúðum og hafi kærendur ekki getað gert ráð fyrir öðru. Ekki standi til að breyta deiliskipulagi hvað þetta varði enda eigi að þétta byggð á svæðinu. Nýtingarhlutfallið á lóðinni verði að hámarki 1,1 en að lágmarki 1,06 sem sé óverulegt umfram hlutfallið 1.

Úrskurðarnefndin segir í niðurstöðu sinni að fyrir liggi að nýtingarhlutfallið verði hærra en en gildandi deiliskipulag heimilar og auk hafi verið „upplýst um að stærð þess húss sem fyrir sé á lóðinni sé ekki rétt skráð þar sem einnig hafi láðst að reikna svalir þess húss til nýtingarhlutfalls. Verður af því áætlað að nýtingarhlutfallið sé enn hærra en bæjaryfirvöld hafa haldið fram.“

DEILA